135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

dreifing fjölpósts.

122. mál
[14:38]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Forseti. Við hv. þm. Siv Friðleifsdóttir erum, að mér heyrist, sammála um þetta mál. Við munum auðvitað vinda okkur í það í umhverfisráðuneytinu að koma þessum starfshópi á laggirnar og af stað. Ég held reyndar að það þurfi kannski ekkert mjög langan tíma til að fara í gegnum þessi mál og finna viðunandi niðurstöðu.

Niðurstaða þarf að finnast og það er ljóst að þetta mikla magn pappírsúrgangs og pappírs af öllu tagi þvælist fyrir okkur, ekki bara í venjulegu heimilishaldi — og það eru ekki bara auglýsingapésarnir og fríblöðin sem safnast upp heldur eru það líka í kosningabaráttu bæklingar frá stjórnmálaflokkum, frambjóðendum og öðrum slíkum. Við eigum okkar hlut að máli í því að dreifa pappír til almennings.

Mestu skiptir að umhverfiskostnaðurinn af vörunni komi fram og sé borinn af einhverjum og það sé sá sem ber ábyrgð á því að koma vörunni af stað eða reyna að selja hana eða koma henni til skila. Það skiptir mestu máli í öllu því er varðar sorphirðu og endurvinnslu almennt að kostnaðurinn lendi á réttum stað.

Eftir að hafa skoðað þessi mál á undanförnum vikum og mánuðum finnst mér svo margt snúa á haus í þessum efnum hér á landi. Það virðist kosta meira að endurvinna og flokka. Sá sem flokkar sorp borgar fyrir sérstakar tunnur eða sérstaka þjónustu, jafnvel fyrirtækis úti í bæ, en sá sem hendir öllu sínu í svörtu tunnuna og borgar venjulegt sorphirðugjald til sveitarfélagsins borgar ekki raunkostnaðinn af sorphirðu sinni. Þetta gengur ekki upp í mínum huga, þetta þarf að laga.