135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

nettæling.

171. mál
[14:43]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Svarið við þessari spurningu kom í raun fram í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 5. júlí sl. þegar ég notaði í fyrsta sinn orðið nettæling um það hugtak sem heitir grooming á ensku og er að finna í breskri löggjöf og einnig í lögum sem Norðmenn hafa sett. Þetta mál var rætt á fundi dómsmálaráðherra Norðurlandanna á liðnu sumri og við stefnum að því að hittast aftur í byrjun desember í Ósló til þess að ræða þessi mál frekar og kynna okkur hvernig Norðmenn taka á málum af þessum toga.

Ef í ljós kemur í Hæstarétti að menn telja að tilraunaákvæði almennra hegningarlaga nái ekki til brota af þessu tagi stendur að sjálfsögðu það sem ég sagði: Þá þurfum við að fara yfir það hér hvort við þurfum að breyta okkar lögum til þess að ná til brota af þessum toga. En ég held að rétt sé að bíða eftir niðurstöðu Hæstaréttar í málum sem hefur verið áfrýjað þangað. Aðstæður geta að vísu verið á þann veg að erfitt sé að nota þau sem fordæmi en ég ætla ekki að fullyrða neitt um það fyrr en niðurstaða liggur fyrir. En eitt er víst að ákæruvaldið og ríkissaksóknari taldi að grundvöllur væri fyrir ákæru á grundvelli 20. gr. almennra hegningarlaga þegar hann fór af stað með þessi mál sem eru þess eðlis að þarna er um það að ræða að nota netið til þess að tæla börn.

Nettæling er skilgreind á þann veg að fullorðinn einstaklingur leitar eftir persónulegum upplýsingum um barn á netinu eða fylgist með samskiptum barna á spjallrásum í leit að fórnarlambi með kynferðisleg tengsl í huga. Síðan setur hann sig í samband við barnið, oft undir því yfirskini að hann sé einnig barn, og ávinnur sér traust þess, t.d. með því að sýna því umhyggju. Smám saman stofnar hinn fullorðni til náins tilfinninga- og trúnaðarsambands við barnið. Hann reynir að ná sambandi með kröfum og óskum og hreyfir við kynferðislegum efnum til að athuga þolmörk barnsins. Sýni barnið mótþróa slítur hinn fullorðni sambandinu við barnið eða reynir nýja leið til að afla sér trausts. Þegar hinn fullorðni telur sig öruggan í sambandi sínu við barnið upplýsir hann smám saman um eigin hag og stingur síðan upp á fundi þar sem kynferðisbrotið á sér stað. Dæmigert er að barnið vilji ekki horfast í augu við að hinn fullorðni hafi þessi áform eða það þori ekki að segja öðrum frá af ótta við viðbrögð hans.

Þetta er skilgreining á broti af þessu tagi og eins og ég segi hefur ríkissaksóknari talið að unnt væri að bregðast við brotum undir þessari lýsingu á grundvelli laga eins og þau eru hér. Ef í ljós kemur að svo er ekki er nauðsynlegt fyrir okkur, eins og Breta og Norðmenn og fleiri þjóðir, sem eru að velta því fyrir sér, að taka upp í okkar lög ákvæði sem gera slíkt athæfi refsivert.