135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

tálbeitur í baráttu gegn barnaníðingum.

172. mál
[14:54]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég vík sérstaklega að beitingu tálbeitna við rannsókn kynferðisbrota gegn börnum vil ég minna á að hér á landi eru í gildi fyrirmæli um notkun tálbeitu, útgefin af ríkissaksóknara árið 1999. Heimilt er að nota tálbeitu við rannsókn sakamáls þegar sterkur grunur er um að verið sé að fremja eða reynt verði að fremja alvarleg brot. Brot það sem rannsóknin beinist að verður að vera brot sem varðað getur 8 ára fangelsi. Ekki má nota tálbeitu til að kalla fram refsiverða háttsemi sem ella hefði ekki verið framin.

Eins og fram kom í fyrra svari mínu gaf ríkissaksóknari síðasta sumar út ákærur í þremur málum þar sem ákært var fyrir þá háttsemi sem við höfum kallað nettælingu. Eitt álitaefnanna í þeim málum var notkun tálbeitna. Þar voru ekki lögreglumenn tálbeitur heldur þáttagerðarmenn sjónvarpsstöðvar. Taldi héraðsdómur að sönnunargildi þeirra gagna sem aflað var í tengslum við gerð sjónvarpsþáttar með aðstoð tálbeitu væri mjög takmarkað. Einkum var vísað til þess að lögregla hefði ekki haft heimild til að beita þeim aðferðum sem þáttagerðarmenn gerðu en nú er beðið niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli.

Vert er að minna á að íslenskar reglur um notkun tálbeitu gera ráð fyrir því að lögreglumenn séu í hlutverki tálbeitna. Svo er einnig í dönskum rétti þar sem notkun tálbeitu er heimiluð í tilteknum tilvikum, þ.e. þegar rökstuddur grunur leikur á að verið sé að fremja alvarlegt brot eða tilraun sé gerð til þeirra og notkun tálbeitu hefur afgerandi þýðingu fyrir rannsókn málsins. Eru þessi skilyrði áþekk þeim sem mælt er fyrir um í íslensku reglunum.

Hvað varðar hinar íslensku reglur er í frumvarpi til laga um meðferð sakamála, sem væntanlega kemur hér til meðferðar á þinginu innan skamms, ekki gert ráð fyrir breytingu á reglum um notkun tálbeitna en þar er gert ráð fyrir því, eins og nú er, að ríkissaksóknari setji reglur um þær aðferðir lögreglu við rannsókn sakamála sem ekki er kveðið á um í lögunum. En þær reglur eru þegar í gildi eins og ég nefndi áður.

Frumvarpið um meðferð sakamála er samið af réttarfarsnefnd og er lagt fram af mér og henni eftir ítarlegar umræður okkar á milli. Ég tel mikilvægt að þingið fái frumvarpið sem fyrst til meðferðar og þar verði m.a. unnt að fjalla um þetta mál og Alþingi taki afstöðu til þess hvort það sjái nauðsyn á að breyta þessum reglum eða hafa það þannig áfram að ríkissaksóknari hafi þessar heimildir eins og hann hefur í fleiri tilvikum að því er varðar starfsemi lögreglunnar. Að sjálfsögðu getur þingið við meðferð málsins gefið ábendingar um að breyta einhverju um inntak reglnanna.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag sem við höfum, að ríkissaksóknari gefi út slíkar reglur og heimildir, sé mjög gott og engin nauðsyn kalli á að breyta því. Alþingi hefur þó að sjálfsögðu síðasta orðið um efni frumvarpsins sem ég vona að komi fljótlega til umræðu í þingsalnum.