135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

tálbeitur í baráttu gegn barnaníðingum.

172. mál
[14:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eins og fram kom í máli mínu tel ég að það sé nauðsyn á að við göngum aðeins lengra en hæstv. ráðherra er tilbúinn að tala fyrir á þessu stigi. Ég held að lögreglan þurfi þessi úrræði í lög og það má ekki vera neinn vafi á notkun slíkra úrræða því að þetta eru svolítið sérstök úrræði.

Auðvitað vakna fjölmargar spurningar við notkun á tálbeitum, sérstaklega þegar fjölmiðlar eru farnir að beita tálbeitum. Það gegnir öðru máli um að fara að færa þær heimildir til lögreglu samkvæmt lögum. Við sjáum að aðrar þjóðir hafa farið þá leið að setja þetta í lög, m.a. Danir og Frakkar að einhverju leyti.

Mig langar að ganga eftir frekari svörum frá ráðherranum. Hann segir að núgildandi kerfi varðandi regluverk ríkissaksóknaraembættis sé fullnægjandi eins og er. Væri þá ekki heppilegt að hafa slík ákvæði í lögum?

Telji hæstv. ráðherra að þessi heimild sé fullnægjandi í þessu regluverki ríkissaksóknara, er honum þá kunnugt um að íslensk lögregla hafi beitt tálbeitum í þessum málaflokki, í baráttu gegn barnaníðingum? Ef ekki, hver telur ráðherrann að ástæðan sé? Getur verið að grunnurinn sé kannski ekki nógu skýr, getur verið að lögreglan telji sig ekki hafa nægilega fastan grunn til að fara í slíkar aðgerðir, þ.e. að beita tálbeitum á netinu eða annars staðar til að lokka fram kynferðisbrotamenn?

Ég tel sömuleiðis, vegna þess að ráðherrann talar um að innan tíðar munum við ræða um frumvarp um meðferð sakamála, að það hefði verið heppilegra ef þessi atriði væru í því veigamikla frumvarpi þótt það væri ekki nema til að umsagnaraðilar sem fá frumvarpið til umfjöllunar geti tekið afstöðu til slíkra álitaefna. Ef nefndin ætlar að breyta frumvarpinu fáum við ekki slíka umræðu meðal allra umsagnaraðila líkt og er gagnvart öðrum hlutum frumvarpsins.

Ég vona að við náum að hreyfa við þessum málum. Formaður allsherjarnefndar hefur sagt (Forseti hringir.) í fjölmiðlum að það kunni að vera réttlætanlegt að lögreglan noti sérstakar tálbeitur til að ná til meintra barnaníðinga. (Forseti hringir.) Ég er varaformaður nefndarinnar og vona að við náum að hreyfa eitthvað við málinu.