135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

tálbeitur í baráttu gegn barnaníðingum.

172. mál
[15:01]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég get ekki svarað því hvaða afleiðingar það kann að hafa ef einkaaðilar beita þessum aðferðum og síðan verða af því dómsmál. Ég get ekki svarað því. Í þeim málum sem við erum að tala hér um er rétt að Hæstiréttur eigi síðasta orðið áður en menn fara að leggja út af því. Vafalaust getur skapast skaðabótaskylda vegna þess eða eitthvað slíkt. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess. Ég tel að það fyrirkomulag sem við höfum á þessum málum sé fullkomlega lögmætt, það sé enginn vafi um lagagrundvöll og þurfi ekki að setja nein sérstök ákvæði í lög til að tryggja rétt ríkissaksóknara til að setja þessar reglur.

Ég tel líka sjálfsagt að þegar allsherjarnefnd fjallar um frumvarp um meðferð sakamála kalli hún menn fyrir sig. Þá getur hún spurst fyrir um þetta, spurt bæði lögreglumenn og ríkissaksóknara. Raunar er eðlilegt að það sé rætt á nefndarfundum hvort lögregla hafi beitt þessu. Ég hef ekki vitneskju um það. Ég legg eindregið til að menn hrófli ekki við þessum tillögum frá réttarfarsnefnd og ráðuneytinu en taki þetta að sjálfsögðu til meðferðar í allsherjarnefndinni og ræði það. Þótt ekki standi ákvæði í frumvarpinu um þetta er þetta í framkvæmd og menn geta síðan farið yfir hana á fundum nefndarinnar og fengið allar þær upplýsingar sem þeir óska um þessi mál.