135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

húsnæðismál lögreglustjórans á Suðurnesjum.

180. mál
[15:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um áætlanir varðandi framtíðarlausn á húsnæðisvanda lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum. Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum er næststærsta embætti landsins. Í öllum sveitarfélögunum fimm sem embættið þjónustar er fólksfjölgun mikil og með því mesta á landinu.

Íbúatala á Suðurnesjum er nú komin yfir 20 þús. Þar að auki er alþjóðaflugvöllurinn í embætti lögreglustjórans sem gerir embættið þess vegna frábrugðið öðrum embættum á landinu.

Á síðasta ári voru farþegar sem um flugstöðina fóru rúmlega 2 milljónir og áætlanir gera ráð fyrir enn frekari aukningu farþega um flugstöðina á þessu ári. Verkefnum fjölgar, auk þess hafa reglur verið hertar hvað varðar landamæraeftirlit á flugvöllum og auknar öryggiskröfur gerðar. Meðal þess húsnæðis sem embættið hefur nú yfir að ráða er lögreglustöðin í Reykjanesbæ og lögreglustöðin í Grænási sem var áður húsnæði sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli. Byggingarnar báðar eru komnar til ára sinna og henta ekki vel þeirri starfsemi sem embættið sinnir í dag, auk þess sem húsnæðið er of lítið. Mikið óhagræði fylgir því að vera með aðstöðu lögreglu á fleiri en einum stað. Nú er almenna lögreglan eingöngu í lögreglustöðinni í Reykjanesbæ, auk þess sem lögreglan hefur starfsstöð í suðurbyggingu flugstöðvarinnar í Grænási og Grindavík.

Gripið hefur verið til þess ráðs að leigja skrifstofugáma fyrir starfsemina og er þeim komið fyrir við húsnæði í Grænási. Þetta eru rúmlega 50 skrifstofugámar á tveimur hæðum. Þeim er að vísu haganlega fyrir komið, þokkalegir að innan og að mörgu leyti ágætisbráðabirgðalausn en vissulega ekki sú lausn sem unandi er við til frambúðar og leysir aðeins þann vanda sem lýtur að því að auka við skrifstofurými. Til að ná fram þeirri hagræðingu sem stefnt var að með breytingum þeim sem gerðar voru um síðustu áramót með sameiningu lögregluembætta er nauðsynlegt að allar deildir lögreglunnar hafi aðstöðu á sama stað og að embættið fái húsnæði sem uppfylli allar þær nútímakröfur sem gerðar eru til starfsemi lögreglunnar í dag. Einnig þarf að huga vel að staðsetningu nýrra lögreglustöðva. Aðkoma þarf að vera góð að helstu samgönguleiðum um Suðurnes.

Eins og hér hefur verið lýst býr lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum ekki við góðan kost hvað varðar húsnæðismál en það kemur þó ekki í veg fyrir að lögreglan skili sínu verki vel. Þar sem ekki er vitað með vissu hver áformin eru varðandi húsnæðismál lögreglunnar er spurningin lögð fram, virðulegi forseti.