135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

húsnæðismál lögreglustjórans á Suðurnesjum.

180. mál
[15:06]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það er rétt sem fram kom hjá fyrirspyrjanda, það er alveg augljóst að byggja þarf nýja lögreglustöð fyrir embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og koma starfsemi löggæslunnar fyrir á einum stað. Um síðustu áramót urðu miklar breytingar á þessu sviði þegar til varð nýtt lögregluembætti, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, með því að sameina lögregluliðin í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli í eitt embætti. Yfirstjórnin fluttist þá alfarið undir forræði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins en Keflavíkurflugvallarembættið hafði áður verið undir forsjá utanríkisráðuneytisins og búið við flugstöðina, einnig í gámum. Það voru uppi áform á þeim tíma um að reisa sérstakt stjórnsýsluhús, ef ég veit rétt, í nágrenni við flugstöðina til að hýsa lögregluliðið. Eftir að liðin hafa sameinast er jafnvel enn brýnni þörf á því að reisa eina bækistöð fyrir lögregluembættið. Nú fer starfsemin fram á þremur stöðum, þ.e. í flugstöðinni, lögreglustöðinni við Hringbraut og í húsnæði að Grænási. Ég tel að fyrir allt skipulag og alla starfsemi lögreglunnar sé mjög mikilvægt að koma allri starfseminni fyrir á einum stað og lýsti ég áhuga á því að það yrði gert þegar ég átti fundi þar fyrir skömmu með yfirstjórn og starfsmönnum embættisins. Ég heimilaði embættinu að huga að framtíðartilhögun í húsnæðismálum þess og senda greinargerð til ráðuneytisins um þær lausnir sem embættið teldi bestar til að mæta húsnæðisþörfinni ásamt kostnaðarmati og mati á aukinni hagkvæmni. Ég lýsti þá þeirri skoðun og ítreka hana hér að ég tel mjög vel koma til greina að nýtt húsnæði verði byggt í einkaframkvæmd og því hraðað eins og kostur er að komast að niðurstöðu í málinu.

Ég tel einnig koma vel til álita að í þessu húsnæði verði önnur starfsemi sem er á vegum stofnana dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á þessu svæði, eins og t.d. útgáfa vegabréfa sem fer fram í Reykjanesbæ í sérstöku húsnæði þar sem gæta þarf mikils öryggis. Ef ráðist yrði í byggingu af þessum toga fyrir lögregluembættið tel ég að huga eigi að því að sú bygging hýsi einnig þá starfsemi og jafnvel aðra þætti sem kann að verða skynsamlegt fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið að flytja á þessar slóðir.

Það er unnið af miklum krafti að þarfagreiningu fyrir embættið og nýju húsnæði fyrir embættið á vegum lögreglustjórans og starfsmanna hans. Það er búist við að þeirri vinnu verði lokið núna í desember. Mér skilst að fyrir liggi óformlegt vilyrði fyrir nýtt hús við hliðina á nýrri slökkvistöð sem stefnt er að því að byggja á næstu missirum. Segja má að allur undirbúningur að þessu máli sé kominn á rekspöl. Að sjálfsögðu hafa fjármunir ekki verið tryggðir eða gengið frá þeim hlutum, enda ekki tímabært meðan málið er á því stigi sem það er núna. Fyrst verður að vinna þá vinnu sem hafin er, átta sig á lóðum og öðru slíku, hve stórt húsið þyrfti að vera og hvernig úr garði gert áður en lengra er haldið. Ráðuneytið og ég höfum lýst áhuga á því að fá þessar tillögur og leggja mat á þær, síðan verði úr þeim unnið og búið vel og sómasamlega um þetta mikla lögregluembætti sem er annað stærsta lögregluembættið í landinu á eftir lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Væri sérstakt efni til umræðna hér líka húsnæðismál þess embættis en hér erum við að ræða um lögreglustjórann á Suðurnesjum.