135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

húsnæðismál lögreglustjórans á Suðurnesjum.

180. mál
[15:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra svar hans og fagna því auðvitað. Af svörum hans má ráða að innan skamms verði ráðin bót á húsnæðismálum embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum. Til að ítreka mikilvægi þessa máls í hugum Suðurnesjamanna vil ég einnig að hér komi fram að á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem fór fram um síðustu helgi komu fram áhyggjur sveitarstjórnarmanna á svæðinu af stöðu húsnæðismála embættisins og almennt af málefnum löggæslunnar á Suðurnesjum. Aðalfundurinn ályktaði um mikilvægi þess að undirbúningi að byggingu húsnæðisins fyrir aðalstöðvar embættisins yrði flýtt og að byggingu þess verði að fullu lokið eigi síðar en árið 2009. Þá kom einnig fram í sömu ályktun frá aðalfundinum að treysta þurfi rekstrargrundvöll embættisins þannig að verkefni sem tengjast Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi ekki þau áhrif að embættið hafi ekki styrk til að sinna sem skyldi þjónustu og lögregluverkefnum annars staðar. Þá er í ályktuninni bent á að algjört skilyrði er að rekstrargrundvöllurinn sé þannig að lögreglan hafi a.m.k. sama fjölda lögreglumanna og var fyrir sameiningu lögregluembættanna. Í dag vantar mikið upp á svo sé.

Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra skýr svör og þakka hv. þm. Grétari Mar Jónssyni fyrir að taka þátt í umræðunni.