135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

húsnæðismál lögreglustjórans á Suðurnesjum.

180. mál
[15:14]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil láta þess getið að þessu umfangsmikla lögregluembætti er gert skylt að sinna mjög mörgum og flóknum verkefnum. Ég tel að það samstarf sem hefur tekist á milli ráðuneytisins, embættisins og lögreglustjórans um að laga þetta nýja embætti að þeim kröfum sem gerðar eru til þess við þessa nýskipan hafi skilað mjög góðum árangri. Það er markvisst unnið að því að tryggja að embættið geti í senn sinnt störfum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fyrir almenning á svæðinu. Það verður búið þannig um hnútana, tel ég að eigi að gera þegar umsvif aukast í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, að tenging verði á milli þeirrar aukningar í umsvifum og tekjuöflunar embættisins vegna þeirrar þjónustu sem það veitir á þeim stað sérstaklega. Menn verða að líta til þess og ég tek undir að það verði að tryggja að aukin umsvif í flugstöðinni leiði ekki til þrengingar að annarri starfsemi lögreglunnar. Allt öryggi á svæðinu er mikilvægt fyrir flugstöðvarstarfsemina sem er sérstaks eðlis eins og við vitum.

Varðandi mannaflann á það sama við um þetta embætti og önnur, það er ekki bara spurning um fjármagn heldur líka hvort menn séu tiltækir, hvort nógur mannafli sé til í landinu til að manna þær stöður sem við höfum stofnað til á vettvangi lögreglunnar. Tölur sýna að hér eru fleiri lögreglumenn á hvern íbúa en t.d. annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta viljum við hafa svona. Við verðum þá að sjálfsögðu að eiga kost á að ráða menn til starfa og að menn vilji ganga til þeirra.

Við verðum líka að efla tæknibúnað og auðvelda lögreglunni störf með því að nýta bestu nútímatækni. Það er svo sannarlega gert hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum.