135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

Hafnarfjarðarvegur.

167. mál
[15:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann telji æskilegt að setja hluta Hafnarfjarðarvegar í stokk. Þessi fyrirspurn er komin fram af ýmsum ástæðum. Fyrir stuttu síðan áttu fulltrúar sveitarfélagsins, þ.e. bæjarfulltrúar í Garðabæ, fund með þingmönnum Suðvesturkjördæmis og þeir lögðu afar mikla áherslu á þetta mál. Það ríkir þverpólitísk samstaða um að fara fram á að setja Hafnarfjarðarveg í stokk, eins og ég skil það, í gegnum Garðabæ.

Það er ljóst að það á að byggja geysilega mikið upp í Garðabæ á næstunni. Þar er verið að byggja nýjan miðbæ. Það á að byggja á Friggjarreitnum og það er verið að byggja mjög mikið upp í Sjálandshverfinu. Þannig að á svæðinu sjálfu á að byggja mjög mikið upp og annars staðar í Garðabæ líka. Fyrir utan það er verið að byggja mikið upp í Kópavogi, Hafnarfirði og á Suðurnesjum. Það er því að verða geysileg fjölgun íbúa á þessu svæði, alveg ótrúlega mikil fjölgun íbúa á næstu árum. Þessum íbúum mun fylgja mikil umferð og það er áætlað að Hafnarfjarðarvegurinn verði sex akreinar. Þetta er ekkert lítið fyrirbæri, slíkur vegur, sex akreinar.

Ég vil því spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann telji æskilegt að setja þennan veg í stokk og ég vil benda á að það eru tvær brautir sem skera Garðabæ í tvennt. Það er Reykjanesbrautin annars vegar og Hafnarfjarðarvegurinn hins vegar. Það voru miklar umræður um Reykjanesbrautina, hvort það ætti að setja hana í stokk eða ekki og það var ekki gert. Það voru þó gerðar breytingar á þeirri framkvæmd út af hljóðvist. En ég verð að viðurkenna það að þegar maður keyrir núna um Reykjanesbrautina í gegnum Garðabæ þá spyr maður sig: Af hverju settum við þessa braut ekki í stokk?

Ég viðurkenni það, virðulegi forseti, vegna þess að þegar maður keyrir þarna í gegn, t.d. frá suðri til norðurs, þá er gífurlega hár veggur á annan kantinn, innbundið grjót í þeim vegg, og síðan er geysihá mön hinum megin. Þannig að maður er eiginlega kominn í stokk. Það vantar bara þakið yfir. Þegar maður upplifir þetta og sér hvað er að gerast hér í umferðarmálum þá spyr maður sig: Þurfum við ekki að fara að stíga þetta skref? Verðum við ekki bara að viðurkenna það?

Auðvitað spyr maður sig hvaða fordæmi það gefi. Vilja þá ekki allir fá alla vegi í stokk? En ég held að við verðum bara að taka eitt svona mál fyrir í einu og gera það upp við okkur hvort það eigi að setja vegi í stokk eða ekki og taka eina framkvæmd fyrir í einu. Ég spyr því hvort vegakerfið sé bara ekki þess eðlis í dag að það sé sprungið hjá okkur, það eru svo miklar tafir og það er alveg ljóst að með því að setja vegina í stokk, eins og t.d. Hafnarfjarðarveginn í gegnum Garðabæ, þá getum við fengið verðmætt land.