135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

Hafnarfjarðarvegur.

167. mál
[15:20]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Árið 2003 réð Vegagerðin í samráði við bæjarverkfræðinginn í Garðabæ, verkfræðistofu til að vinna að gerð tillagna fyrir mislæg gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar í Garðabæ.

Í október 2004 var gefin út greinargerð um fjórar megintillögur, kallaðar a, b, c og d. Í öllum tillögunum er gert ráð fyrir að Hafnarfjarðarvegur verði grafinn niður á kafla um vegamótin og Vífilsstaðavegur lagður á brú yfir hann. Tvær tillagnanna, a og b, gerðu ráð fyrir nokkrum flutningi Vífilsstaðavegar til norðurs, einkum vestan Hafnarfjarðarvegar. Bæði Vegagerðin og Garðabær töldu þessar tillögur koma síður til álita og hefur bæjarstjórn Garðabæjar í raun afskrifað þær með síðustu breytingum á aðalskipulagi svæðisins.

Megintillögurnar, þ.e. c og d sem eftir standa, eru mismunandi hvað varðar lengd þess kafla Hafnarfjarðarvegar sem grafinn er niður. Í tillögu c er Hafnarfjarðarvegur lækkaður á alls um 600 metra kafla og kostnaður við þá tillögu var áætlaður 2.000–2.400 millj. kr. á núgildandi verðlagi. Í tillögu d er Hafnarfjarðarvegur lækkaður á alls um 1.200 metra kafla og yfirbyggður á 400 metra kafla. Kostnaður við þá tillögu var áætlaður um 4.500 millj. kr. á núgildandi verðlagi.

Í greinargerðinni kemur m.a. fram að munurinn á lausnum er mestur í skipulagslegu tilliti þar sem tillaga d gefur ýmsa möguleika á breyttu skipulagi í nágrenni gatnamótanna. Umferð um Hafnarfjarðarveg er jafngreiðfær í báðum tillögunum. Gert er ráð fyrir að hann geti orðið alls sex akreinar. Vegagerðin hefur mælt með tillögu c í viðræðum við fulltrúa Garðabæjar fyrst og fremst vegna hins mikla kostnaðarmunar sem er á þeirri tillögu og tillögu d.

Á vegaáætlun fyrir árið 2009 eru 400 millj. kr. til endurbóta á gatnamótum Vífilsstaðavegar og Hafnarfjarðarvegar. Upphæðin er fyrst og fremst miðuð við að breikka Hafnarfjarðarveg í gegnum vegamótin, hliðstætt þeirri framkvæmd sem gerð var á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar árið 2005. Bæjarstjóri Garðabæjar hefur óskað eftir að fullkannað verði hvort ekki komi til greina að byggja frekar fyrsta áfanga framtíðargatnamóta fyrir umrædda upphæð og er sú athugun nú að hefjast.