135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

Hafnarfjarðarvegur.

167. mál
[15:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við erum hérna á rauðu ljósi allan tímann. (Gripið fram í: Þetta er eins og umferðin í Garðabæ.) Þetta er eins og umferðin í Garðabæ, (Gripið fram í.) alltaf á rauðu. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og fagna því að þingmenn af höfuðborgarsvæðinu og í kjördæminu taka þátt í henni.

Ég velti því fyrir mér hvað svar hæstv. samgönguráðherra þýddi. Hæstv. ráðherra talar um að Vegagerðin mæli með leið c sem er að lækka veginn á 600 metra kafla, lækka veginn. Það er ekkert verið að tala um stokk eins og ég skil það. Þetta er ekki langur kafli. Ég tel að við séum of hrædd við að taka þetta skref, þ.e. að setja í stokk. Ég tel að við séum of hrædd við það af því við hræðumst fordæmið. Ég held að við verðum bara að taka þetta skref og nú er komið að því.

Í fyrri ræðu minni vísaði ég til Reykjanesbrautarinnar þar sem við settum þá framkvæmd ekki í stokk en byggðum eiginlega stokkinn bara ofan jarðar, nánast. Þannig að ég tel að við þurfum að taka þetta skref.

Ég vil fagna því sérstaklega að hv. þm. Gunnar Svavarsson skuli hér tala um fjárveitingar sem formaður fjárlaganefndar. Ég tel að það sé mikil þungavigt í því að formaður fjárlaganefndar gefi slíka yfirlýsingu og ég fagna því sérstaklega. Það er alveg ljóst að ef sjálfstæði þingsins er eins og það á að vera þá er hægt að gera átak í umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu. Það er allt sprungið hér, það sjáum við bara á hverjum degi. Það er núna þannig að meiri hluti þingmanna er af höfuðborgarsvæðinu.

Ég vil því fagna sérstaklega þessari þungavigtaryfirlýsingu sem kemur frá formanni fjárlaganefndar varðandi fjárveitingar og ég er mun bjartsýnni eftir að hafa tekið þátt í þessum umræðum heldur en áður, að málið komist í höfn og við setjum Hafnarfjarðarveginn í stokk í gegnum Garðabæ.