135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

eignir Ratsjárstofnunar.

156. mál
[15:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra svörin. Ég verð að segja að ég lái ekki sveitarstjórnarmönnum og íbúum á Bakkafirði og á Þórshöfn að halda allan tímann sem ratsjárstöðin var starfrækt að utanríkisráðuneytið hefði eitthvað með íbúðarhúsin að gera. Það er þessi nýja stefna sem hefur verið tekin upp af stjórnvöldum undanfarin ár, þ.e. að koma húsnæði, hvort sem það eru skrifstofur eða annað húsnæði sem ráðuneyti eða stofnanir hvers ráðuneytis þurfa á að halda, yfir í fjármögnunarleigu eða kaupleigusamninga þar sem viðkomandi stofnun hefur ekkert með fasteignirnar að gera.

Í þessu tilfelli átti fjárfestingarfélag þessi hús og því má segja að utanríkisráðuneytið hafi í sjálfu sér ekki haft með ráðstöfun þeirra að gera. Ég tel samt sem áður að ábyrgðin hafi legið hjá hæstv. ráðherra að reyna að minnsta kosti að hafa áhrif á það að íbúðarhúsunum á Bakkafirði yrði haldið til haga, að þau yrðu ekki seld með það sama, að minnsta kosti þar til fyrirsjáanlegt væri að þau nýttust ekki eins og sveitarfélagið (Forseti hringir.) óskaði eftir, þ.e. fyrir starfsmenn annarrar stofnunar. Ég tel (Forseti hringir.) að hæstv. utanríkisráðherra og aðrir ráðherrar eigi að hafa í huga (Forseti hringir.) samráð við sveitarstjórnir og íbúa.