135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

þjónusta við aldraða.

175. mál
[15:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

Væntir ráðherra þess að þjónusta við aldraða, svo sem rekstur heimahjúkrunar og hjúkrunarrýma, færist til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu?

Ástæða þess að ég ber fyrirspurnina fram er sú að við höfum fengið nýjan heilbrigðisráðherra og það er áhugavert að heyra skoðanir hans og stefnu í jafnmikilvægum málaflokki sem þessum. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga er vissulega eilíft umræðuefni og algengt er að stjórnmálaflokkarnir álykti á landsfundum um mikilvægi þess að fjölga verkefnum sveitarfélaga á kostnað ríkisins.

Vitna má í stefnu Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„Landsfundurinn telur að sveitarfélögin eigi að bera ábyrgð á nærþjónustu svo sem heilsugæslu, öldrunarþjónustu, hjúkrunarheimilum, heimahjúkrun og heimaþjónustu. Fundurinn leggur áherslu á að þessir málaflokkar verði fluttir heim í hérað sem fyrst.“ — Svo mörg voru þau orð.

Þá má vitna í samþykktir frá Samfylkingunni, sem er hinn stjórnarflokkurinn, þar segir, með leyfi forseta, undir fjórða lið: „Flytja málefni aldraðra til sveitarfélaga. Þannig gefst tækifæri til að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun.“

Miðað við þetta má vænta breytinga. Þess má geta að í tíð Framsóknarflokksins í þessum málaflokki lá nærri að á næstsíðasta kjörtímabili tækist að ná niðurstöðu og samkomulagi við sveitarfélögin um að þessi tilflutningur ætti sér stað. Á síðustu stundu gerðist eitthvað sem varð til þess að svo varð ekki. Hef ég grun um að stóru og öflugu sveitarfélögin á suðvesturhorninu hafi, þegar á reyndi, komið í veg fyrir það.

Einnig má geta þess að fyrrv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, skipaði nefnd til að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og mögulega tilfærslu verkefna sem tengjast málefnum aldraðra. Sú nefnd er líklega að ljúka störfum um þetta leyti miðað við það sem kemur fram í erindisbréfi. Vissulega hlýtur það að verða veganesti þar sem um þverpólitíska nefnd er að ræða, veganesti fyrir hæstv. ráðherra í þessum mikilvægu málum.