135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

þjónusta við aldraða.

175. mál
[15:43]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðaust. spyr hvort ég vænti þess að þjónusta við aldraða, svo sem rekstur heimahjúkrunar og hjúkrunarrýma, færist til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu.

Eins og þingmanninum er kunnugt standa fyrir dyrum umfangsmiklar skipulagsbreytingar á stjórn um málefni aldraðra þar sem yfirumsjón málaflokksins, eins og hann er skilgreindur í lögum um málefni aldraðra, flyst frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Heilbrigðisþjónusta við aldraða verður engu að síður áfram á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins líkt og gildir um heilbrigðisþjónustu við landsmenn almennt. Á það þar með við um heimahjúkrun og heilbrigðisþáttinn í rekstri hjúkrunarrýma.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar frá því í maí sl. kemur fram að stefnt verði að því að færa ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða og fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Þar kemur einnig fram að tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið.

Virðulegi forseti. Ég er talsmaður þess að efla sveitarstjórnarstigið og fela sveitarfélögum sem mesta sjálfsstjórn verkefna sem varða daglegt líf íbúa þeirra og teljast til nærþjónustu. Ég legg hins vegar áherslu á að sé farið út í slíkan verkefnaflutning verði að gera það heildstætt þannig að það sé til þess fallið að skýra ábyrgð, einfalda þjónustukerfið og bæta þjónustuna. Það tel ég að verði ekki raunin séu skyldir þjónustuþættir aðskildir og fluttir á milli stjórnsýslustiga í bútum.

Hv. þingmaður spyr hvort ég vænti þess að heimahjúkrun við aldraða verði flutt til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu. Ég hef ítrekað lýst þeirri skoðun að til þess að efla og bæta þjónustu inni á heimilum fólks sem þarf á stuðningi að halda sé æskilegt að hafa félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun á sömu hendi. Leiðir að því marki eru ýmsar færar. Ég er nú í viðræðum við nokkur sveitarfélög um samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu. Í Reykjavík er vinna í þessum efnum hvað lengst komin enda hófst hún snemma í sumar í tíð fyrri borgarstjórnarmeirihluta.

Virðulegi forseti. Þjónusta á sviði heilbrigðis- og velferðarmála er mikilvæg forsenda velferðar landsmanna. Öllu máli skiptir að þjónustan sé fagleg, að hún sé veitt í samræmi við þörf hvers og eins, að framboð á þjónustu sé nóg og hún sé aðgengileg öllum. Ef þetta er tryggt tel ég ekki skipta máli hver veiti þjónustuna eða hvernig stjórnskipulaginu að baki sé háttað. Með þessu hugarfari kem ég að stjórnun heilbrigðismála í landinu, reiðubúinn að ráðast í skipulagsbreytingar og opinn fyrir öllum nýjum leiðum sem geta leitt til betri þjónustu frá því sem nú er. Markmiðið er að bæta þjónustu við fólk. Það er sama hvaða leiðir við förum að því markmiði ef góður árangur næst.

Dæmin sanna að stjórnskipulagsbreytingar geta tekið óratíma samanber yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna en sú umræða hefur staðið í mörg ár. Ég vil ekki að þeir sem þurfa á þjónustu að halda þurfi að bíða árum saman eftir breytingu á stjórnskipulagi ef unnt er að ráðast strax í að bæta þjónustuna eftir öðrum leiðum. Hvort rekstur heimahjúkrunar og hjúkrunarrýma muni flytjast til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu eða ekki er í mínum huga ekki aðalatriðið heldur skiptir mestu máli að vel og skipulega verði staðið að slíkum tilflutningi, að þess sé gætt að sveitarfélögin séu tilbúin að taka við samþættri þjónustu við aldraða. Hér þurfa allir að vera samstiga.

Ég tel ekki rétt að láta skipulagsatriði af þessu tagi koma í veg fyrir eða tefja þá samþættingu á þjónustunni við aldraða sem nauðsynleg er til að koma til móts við þarfir einstaklinganna. Fyrir mér er þjónustan við fólkið í fyrirrúmi.

Ég vona að með þessu hafi ég veitt fullnægjandi svör við spurningu hv. þingmanns.