135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

þjónusta við aldraða.

175. mál
[15:47]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á þessu svari hæstv. heilbrigðisráðherra. Hér spurði hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir einfaldrar og skýrrar spurningar, um hvort líklegt væri að málefnin færðust til sveitarfélaganna á kjörtímabilinu, þ.e. rekstur hjúkrunarrýma og heimahjúkrunin. Þetta er ekki flókin spurning. Það eru heil fjögur ár sem hæstv. ráðherra hefur í starfi ef hann situr út kjörtímabilið.

Þetta var ekkert svar. Hæstv. ráðherra sagði bara: Ég er opinn fyrir öllu og það er ekki gott fyrir sjúklingana að bíða lengi, að aðalatriðið væri að veita góða þjónustu. Ég vil bara benda hæstv. ráðherra á að það er fullkomin samþætting verði málaflokkurinn fluttur. Þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins og stefna fleiri flokka, stefna Framsóknarflokks og fleiri flokka.

Ég vil bara ítreka fyrirspurnina. Mér finnst mjög spennandi að fá svar við henni. Ætlar ráðherrann að flytja málaflokkinn? Ég skil hann núna þannig að svarið sé nei. Er það rétt skilið hjá mér? Á ekki að flytja málaflokkinn?