135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

þjónusta við aldraða.

175. mál
[15:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég segi eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, að mér fundust svörin frekar óljós miðað við það að stefna þessara tveggja flokka virðist skýr. Reyndar má segja að ræða hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur hafi verið skýrari en svör hæstv. ráðherra í þessum efnum.

En ég tel mikilvægt, þar sem ég veit að hæstv. ráðherra á eftir að koma upp aftur, að hann kveði úr um hvort unnið verði að því að flytja þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna eða ekki. Ég ítreka það sem fram kom í fyrri ræðu minni, að ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn, sem á þeim tíma hafði mikil völd hér á suðvesturhorninu og hefur reyndar enn í sumum sveitarfélögum, hafi í rauninni komið í veg fyrir að af þessu varð um árið þegar mikil vinna fór fram til þess að af því gæti orðið, að málefni aldraðra flyttust yfir til sveitarfélaganna.

En ég minntist á nefnd áðan sem hæstv. ráðherra kannski þekkir til. Hún er um það bil að skila niðurstöðu þessa dagana. Það væri forvitnilegt að vita hvort hæstv. ráðherra þekkir til þess starfs og hvort ekki megi treysta því að hann muni gera mikið með niðurstöðu nefndarinnar í framhaldinu.