135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

bólusetningar gegn leghálskrabbameini.

176. mál
[15:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um bólusetningar gegn leghálskrabbameini. Fyrirspurnin hljóðar svo:

Hefur ráðherra áform um að koma á bólusetningum gegn veiru sem valdið getur leghálskrabbameini?

Síðan þessi fyrirspurn var lögð fram hefur ýmislegt gerst í þessu máli. Engu að síður er mjög mikilvægt að heyra svör hæstv. ráðherra um þetta mikilvæga málefni. Það hefur m.a. komið fram að heilbrigðisráðherra Bretlands, Alan Johnson, hefur tekið ákvörðun um að þar í landi verði hafin bólusetning gegn leghálskrabbameini. Það var tilkynnt í lok október. Þannig er að stúlkur á Englandi á aldrinum 12 til 13 ára verða bólusettar gegn veirunni sem valdið getur leghálskrabbameini. Stúlkur yngri en 18 ára verða bólusettar á næstu tveimur árum.

Sóttvarnalæknir okkar, Haraldur Briem, hefur látið hafa eftir sér að það virðist skynsamlegt að byrja þessa bólusetningu áður en að stúlkur ná kynþroskaaldri til að fá sem besta vörn. Það er einmitt það sem ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra greina frá að standi til á Íslandi. Eftir því sem ég best veit hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um hvernig að þessu verði staðið en það sem ég hef heyrt frá hæstv. heilbrigðisráðherra finnst mér hafa verið jákvætt. Ég geri mér vonir um að fá svör sem verði í þá veru.