135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

bólusetningar gegn leghálskrabbameini.

176. mál
[15:57]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur beint til mín fyrirspurn hvort ég hafi áform um að koma á bólusetningum gegn veiru sem valdið getur leghálskrabbameini.

Eins og Alþingi mun kunnugt þá hefur nýlega verið sett á markað bóluefni gegn algengri veiru sem valdið getur leghálskrabbameini. Talið er að vörtuveirur sem nefnast HPV eða human papillomavirus séu orsök leghálskrabbameins að hluta og hafa miklar bólusetningarannsóknir átt sér stað víða um lönd, m.a. með þátttöku íslenskra lækna og sjúklinga. Sýking af völdum þessara vörtuveira er talin nokkuð algengur kynsjúkdómur með hæsta tíðni fyrir 25 ára aldur en algengi fer síðan lækkandi eftir að hærri aldri er náð.

Hér á landi hefur náðst umtalsverður árangur í baráttunni gegn leghálskrabbameini með kerfisbundinni leit en hér greinast þó um 15 konur á hverju ári með sjúkdóminn. Það telst óneitanlega til mikilla tíðinda að hugsanlega megi bólusetja gegn krabbameini og hefur þetta orðið til mikillar umræðu í okkar nágrannalöndum.

Á vegum sóttvarnaráðs er starfandi sérstök nefnd sem er að semja drög að leiðbeiningum sem lagðar verða fyrir ráðið með tillögum um aðgerðir hér á landi. Ráðið mun síðan kynna mér tillögur sínar.

Ég vil einnig geta þess að á vegum Sóttvarnastofnunar Evrópu er verið að skoða málið mjög gaumgæfilega, bæði með tilliti til virkni og kostnaðarhagkvæmni. Í frumdrögum sem hafa verið kynnt kemur fram að lönd með lága tíðni leghálskrabbameins þurfi sérstaklega að skoða hvort og hvernig sé farið af stað með umfangsmiklar aðgerðir, svo sem að bólusetja heila árganga eða mjög stóra hópa.

Ísland telst til þeirra landa þar sem tíðni leghálskrabbameins er hvað lægst. Því er full ástæða til að skoða málið vandlega. Ég mun því ekki taka frekari ákvörðun í málinu fyrr en nánari tillögur sérfræðinga okkar liggja fyrir.