135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

bólusetningar gegn leghálskrabbameini.

176. mál
[15:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir að vanda þarf til undirbúnings í máli eins og þessu og vil því leyfa mér að líta á svar hæstv. ráðherra sem jákvætt þannig að líkur séu á að af þessu geti orðið þótt ákvörðunin liggi ekki fyrir.

Ég ítreka að ég tel þetta stórt mál og mjög mikilvægt að sé þess nokkur kostur verði farið út í skipulagðar bólusetningar á ungum stúlkum eins og Bretar virðast hafa tekið ákvörðun um að gera. Vissulega kostar það peninga en heilbrigðiskerfið kostar mikla fjármuni. Með því að fara þessa leið væri unnið mikið forvarnastarf fyrir utan það að hægt væri að bjarga konum frá því að fá krabbamein sem oft getur dregið þær til dauða.

Ég tek orð hæstv. ráðherra þannig að hann sé jákvæður gagnvart þessu þótt ég hefði kannski kosið að fá meira afgerandi svör. Ég mun halda þessu máli gangandi og spyrja hæstv. ráðherra nánar út í það síðar.