135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

bólusetningar gegn leghálskrabbameini.

176. mál
[16:01]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og þann áhuga sem hv. þingmaður sýnir þessu máli. Þetta er allt satt og rétt sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi málsins. Þetta er eitt af því sem við getum kallað forvarnir eða fyrirbyggjandi aðgerðir og ég er að skoða það sérstaklega í samræmi við þær áherslur sem ég hef lagt og kallað „heilsustefnu“. Þetta er bara einn af þeim liðum, nokkuð sem við getum kallað hefðbundnar forvarnir og sömuleiðis fyrirbyggjandi aðgerðir.

Varðandi þetta og ýmislegt annað sem okkur er mögulegt núna en var ekki áður veit ég að hv. þingmaður er alveg sammála mér um að það skiptir máli að fara gaumgæfilega yfir málið með færustu sérfræðingum. Þannig mun ég vinna þetta en ég fagna því að hv. þingmaður tekur málið hér upp og sýnir því þann áhuga sem hér kom fram.