135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[10:54]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir skýrslu allsherjarnefndar. Áður en almenn umræða um efni skýrslunnar hefst vil ég spyrja hvernig þessi nýju vinnubrögð, eða þetta nýja form sem hæstv. forseti kynnti áður en ræða hv. þingmanns hófst, leggist í nefndina.

Ég spyr vegna þess að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með álit nefndarinnar sem er hér á prentuðu þingskjali, hluti úr blaðsíðu. Ég tek það þó fram að ég var ánægð með að hv. þingmaður skyldi ekki hafa látið nægja að lesa álitið heldur komið með yfirgripsmeiri ræðu til okkar þingmanna.

Ég hef átt sæti í allsherjarnefnd í fjögur ár en á það ekki lengur. Ég hélt að ég fengi að vita meira um efni skýrslunnar, sem ég hef því miður ekki haft tíma til að lesa, í áliti allsherjarnefndar, sem prentað er á þingskjali. Ég vil fá að heyra, áður en umræðan hefst, um þessi formlegu atriði. Hver var hugmyndin að þessum nýju vinnubrögðum? Reyndar lýsti hæstv. forseti því. En ég sé ekki að þau markmið gangi eftir í álitinu sem dreift hefur verið á skjali sem við höfum haft tækifæri til að kynna okkur. Það skjal segir okkur sem ekki höfum lesið skýrsluna ekki nokkurn skapaðan hlut.