135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[10:56]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að geta þess að við erum að stíga fyrstu skref í nýjum vinnubrögðum og við höfðum ekki fyrir okkur fordæmi fyrir því hvernig álitið ætti að vera úr garði gert.

Þetta mun hins vegar þróast, hygg ég, á næstu árum og í umræðum í allsherjarnefnd kom fram mikill áhugi nefndarmanna á því að þróa þessi vinnubrögð enn frekar þannig að við munum fara ítarlegar í efni skýrslu umboðsmanns en gert hefur verið.

Nú er það reyndar svo að umfjöllun okkar í allsherjarnefnd um skýrslu umboðsmanns var öllu meiri en verið hefur undanfarin ár. Við áttum tvo fundi með umboðsmanni þar sem við fórum ítarlega yfir skýrsluna með honum þannig að allsherjarnefndarmenn eru vissulega betur undir það búnir að taka þátt í umræðum um skýrsluna en oft hefur verið.

Það er, eins og ég segi, ljóst að ríkur áhugi er hjá allsherjarnefnd að veita þessari skýrslu umboðsmanns meiri athygli og meiri tíma í störfum sínum og þau vinnubrögð verða þróuð á næstu þingum.