135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[11:22]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni að vanda þurfi til verka. Ég er algerlega sammála honum um það. Er það að vanda til verka þegar veita þarf Matís 130 millj. aukafjárveitingu á fjáraukalögum? Er það að vanda til verka að Flugstoðir eru í tómarúmi? Er það að vanda til verka að fela þessum fyrirtækjum opinbera þjónustu án þess að afmarka skyldur þeirra, réttindi borgaranna? Þarf ekki, áður en við förum í úthýsingu, einkarekstur, einkavæðingu, hlutafélagavæðingu eða hvað það kallast allt, að spyrja: Hvernig munu þessar breytingar reynast almenningi? Er það í þágu almennings að gera þetta? Erum við að fara úr öskunni í eldinn? Hvernig munu þessar breytingar reynast þeim, hv. þm. Birgir Ármannsson, sem greiða svo fyrir þjónustuna og eiga ekki andmælarétt? Bætir einkareksturinn almannaþjónustuna? Eða eru þetta guðspjöll? Er þetta biblíutrú, pólitísk trúarbrögð að einkavæðing sé alltaf betri án þess að horfa fyrst á markmið og greina vandann og spyrja sig grundvallarspurninga? Eigum við að haga okkur þannig að við segjum: Einkavæðum, einkavæðum, það er betra?

Það hefur verið gert í biblíubelti einkavæðingar á Íslandi, í Reykjanesbæ. En það reynist bara ekki vel. Bæjarstjórinn í Kópavogi, Gunnar Birgisson, sá talnaglöggi maður, hefur reiknað það út að þetta borgi sig ekki fyrir íbúa Kópavogs. Það má ekki horfa og einblína á einkarekstur sem guðdómlegan. Það á að markmiðsskoða og greina og umfram allt þegar þetta er gert á að tryggja réttindi borgaranna.