135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[12:11]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Hér er á dagskrá skýrsla umboðsmanns Alþingis og sem nefndarmaður í allsherjarnefnd finnst mér það sjálfsögð kurteisi að sýna honum þá virðingu að taka hér til máls og þakka fyrir þessa ítarlegu og greinargóðu skýrslu.

Allt frá örófi alda hefur saga mannkynsins snúist um völd og valdabaráttu, völd yfir löndum, þjóðum og öðru fólki og meiri hluti mannkynssögunnar sýnir okkur og segir frá því að allur þorri almennings lengst af þjónaði og þrælaði fyrir konunga og keisara, aðalsmenn og landeigendur svo eitthvað sé nefnt. Lýðræði eins og við þekkjum það í dag er tiltölulega nýtt af nálinni og á sér ekki nema um 200 ára gamla sögu og er í rauninni enn þá að þroskast, langt frá því að vera fullmótað. Milljónir og milljónatugir manna og kvenna um allan heim eru enn undirokaðar, kúgaðar og vanvirtar þegar kemur að lögum og almennum réttindum. Þrælahald er meira að segja enn þá afar útbreitt og kannski aldrei meira en einmitt núna í veraldarsögunni, ekki aðeins vegna valdníðslu, ríkisstjórna, einræðisherra og valdamanna heldur ekki síður vegna vansældar, vanmenntunar, fátæktar, ótta svo að eitthvað sé nefnt. Jafnvel í okkar eigin Evrópu viðgengst enn þá þrælahald sem birtist okkur m.a. í mansali og vændissölu.

Lýðræðið gengur út á það að borgararnir eigi sinn rétt og ekki sé á þeim rétti troðið. Það gengur út á friðhelgi einkalífs, dómstóla, aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, takmarkanir á stjórnvaldsaðgerðum, lög og reglur og síðast en ekki síst meðvitund fólks um rétt sinn og réttarstöðu. Út á allt þetta gengur lýðræðið.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis, herra forseti, segir okkur að við eigum enn langt í land með að skilja og útfæra og fara eftir þessum meginreglum lýðræðisins. Á árinu 2006 hafði umboðsmaður til meðferðar 266 kvartanir. Þar til viðbótar tók hann upp að eigin frumkvæði önnur sjö mál. Þessi málafjöldi segir auðvitað sína sögu.

Okkur getur gengið misjafnlega í lífinu, efnahagslega, félagslega og svo framvegis. Við getum skipst á skoðunum í pólitískum ágreiningsmálum og verið hatrammir andstæðingar um stefnur, trú og siði. En ég geng út frá því að við öll viljum hafa grundvallarmannréttindi að leiðarljósi. Við viljum ekki að troðið sé á samborgurum okkar í krafti yfirgangs, valdníðslu eða misréttis. Við viljum sem sagt að allir séu jafnir fyrir lögum og það er auðvitað tilgangur þessa embættis og tilgangur þessa starfs sem sér stað í þessari skýrslu. Þess vegna er embætti umboðsmanns Alþingis afar mikilvægt. Það veitir aðhald. Það veitir aðstoð og leiðbeiningar, gefur út álit sitt og reynir þannig af fremsta megni að beita sér gegn misbeitingu valds. Stjórnvöld hafa mikil áhrif og stjórnkerfið, stjórnsýslan er umfangsmikil og flókin og það er ekki á hvers manns færi að skilja allt sem þar stendur og fyrir er lagt, jafnvel ekki einu sinni stjórnvöld sjálf eru fær um að túlka og framkvæma lög og reglugerðir til hlítar svo allir séu sáttir við. Það er út af fyrir sig mannlegt og eðlilegt en þess frekar er auðvitað umboðsmaður Alþingis nauðsynlegur og afar mikilvægur.

Ég vil sem sagt þakka fyrir þessa skýrslu sem hér er lögð fram. Meginniðurstaðan er sú að þetta embætti á fullan rétt á sér og það er aðhald og vernd sem borgararnir og við úti í þjóðfélaginu þurfum á að halda. Dómstólar eru eitt og hafa auðvitað mikla og sína skýringu og þýðingu í stjórnskipun landsins. Umboðsmaður Alþingis hefur ekki þetta dómsvald. En smám saman, að manni best getur sýnst, hafa aðfinnslur hans, ábendingar og niðurstöður fengið meiri vigt og meiri tiltrú og það skiptir máli fyrir almenning, fyrir hinn óbreytta borgara og fyrir framgang lýðræðislegra stjórnarhátta. Það skiptir líka máli fyrir stjórnvöldin sjálf að lesa þessa skýrslu og taka mark á skoðunum umboðsmanns. Þannig styrkir þetta embætti bæði lýðræðið og leikreglur þess.

Ég hafði út af fyrir sig ekki hugsað mér að fjalla um einstaka þætti í þessari skýrslu. En að gefnu tilefni vil ég aðeins leggja orð í belg að því er varðar þær umræður sem hér hafa farið fram um örfá atriði, það er fyrst að því er varðar fleiri umboðsmenn með vísan til þess að við höfum þegar stofnað embætti umboðsmanns barna og talað hefur verið um umboðsmann aldraðra og jafnvel fleiri minnihlutahópa ef svo má nefna. Umboðsmaður Alþingis hefur með frambærilegum rökum bent á að það sé ekki endilega víst að það sé skynsamlegt að setja á stofn embætti launaðs talsmanns slíkra hópa, enda væru og eru möguleikar á því að embætti hans sjálfs geti hugsanlega annað slíkum þörfum. Mér finnst það út af fyrir sig, eins og ég segi, frambærileg rök þó að ég hafi verið talsmaður þess að embætti umboðsmanns aldraðra yrði sett á laggirnar. Hér hefur verið talað um að öryrkjar hafi komið á fund allsherjarnefndar og mælst til þess að umboðsmaður Alþingis tæki þeirra mál upp á sína könnu. Hér var líka talað áðan um hagsmuni innflytjenda. Þarna er um að ræða kannski tvo „minnihlutahópa“. Ég vil jafnframt líka nefna í því sambandi aldrað fólk, eldri borgara. Þessir hópar eiga það sameiginlegt að hafa kannski ekki alveg full tök eða getu til þess að gæta hagsmuna sinna í samfélaginu vegna líkamlegrar eða andlegrar höftunar öryrkja, vegna aldurs hinna eldri og vegna tungumálavandamála hjá innflytjendum. Það er full þörf á því að hugsa til þessara hópa. Þess vegna er ég eftir atvikum þeirrar skoðunar að það sé góð stefna og hugmynd að styrkja stöðu umboðsmanns Alþingis á þann veg að hann geti þá sinnt hagsmunamálum þessara aðila betur en fram að þessu. Þá er ég ekki að tala um að hann gerist talsmaður þessara hópa heldur geti hann flutt þeirra mál ef þeir telja á sér brotið í stjórnsýslu.

Hér var líka minnst á og nokkuð fjallað um það í orðaskaki áðan einkavæðingu og opinber hlutafélög, einkavæðingu opinberra fyrirtækja eða stofnana, hvort það væri pólitískt skynsamlegt eða ekki eða viturlegt. Ég ætla ekki að fara inn í þá umræðu heldur aðeins að undirstrika það að hvora leiðina sem við veljum, hvort við viljum einkavæða eða ekki þá höfum við stigið þau skref að stofna til opinberra hlutafélaga og umboðsmaður Alþingis hefur bent á það í sinni skýrslu að þetta sé á gráu svæði, að ýmislegt þurfi að gera betur og skýra, gera gegnsærra og meðan sú staðreynd er fyrir hendi að opinber hlutafélög eru stofnuð og rekin og þetta er eitthvað óljóst lagalega eða stjórnsýslulega þá tek ég auðvitað undir þessar athugasemdir umboðsmanns Alþingis um að fara þurfi fram vinna í að skýra þessa stöðu á hvorn veginn sem það verður gert.

Ég hjó líka eftir því að gerðar voru athugasemdir um að álit hv. allsherjarnefndar væri í styttra lagi og það gagnrýnt. Að því leyti sem sú gagnrýni kemur fram þá tek ég undir þær útskýringar sem formaður nefndarinnar hefur flutt inn í þingsalinn og aðrar skýringar sem á þessu hafa verið gefnar. Ég hef satt að segja litið svo á að sú umræða sem hér fer fram og er kannski samkvæmt þingsköpum og við erum kannski undir tímapressu, sé ekki neinn endapunktur í þeirri umræðu sem hugsanlega og á að fara fram um þessa skýrslu. Okkur eru sett mörk samkvæmt þingsköpum til að ræða málið hér Það má raunverulega segja að það sé á byrjunarstigi. Það hefur meira að segja komið fram að sumir sem hér hafa tekið til máls hafa ekki talið sér fært að geta lesið þessa skýrslu svo vel sé. Að einhverju leyti er ég kannski í þeim hópi að hafa ekki alveg lesið hana upp til agna. En ég lít svo á að starfi allsherjarnefndar hvað varðar þessa skýrslu sé engan veginn lokið og mér finnst vel koma til greina að í framhaldinu gefum við okkur tækifæri til að fara betur yfir skýrsluna, tína til þau atriði þar sem ábendingar eru um það sem betur megi fara hjá löggjafarvaldinu og í stjórnsýslunni eftir atvikum þannig að við getum búið til lista yfir þau viðfangsefni og síðan rætt það í nefndinni hvort við getum orðið sammála um að koma slíkum hugmyndum, tillögum eða ábendingum frekar á framfæri gagnvart annaðhvort ríkisstjórn eða Alþingi eftir atvikum.

Herra forseti. Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa þetta lengra og ekki orðlengja um þetta. Ég þakka fyrir þessa skýrslu. Ég held að hún sé afar gagnleg og hún styrkir lýðræðið og leikreglur þess tvímælalaust.