135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[12:44]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það væri í sjálfu sér áhrifaríkt að spinna áfram þann þráð byrjað var að spinna hjá þeim tveimur þingmönnum sem töluðu á undan mér en ég læt það spunaverk bíða betri tíma.

Hér erum við að ræða skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2006. Ég kom að því í andsvari mínu við ræðu hv. framsögumanns allsherjarnefndar, Birgis Ármannssonar, að ég teldi hin nýju vinnubrögð ekki með þeim hætti sem ég teldi að þau ættu að vera því álit allsherjarnefndar sem birt er á þskj. 233 væri fremur rýrt í roðinu.

Nú ætla ég að fara örlítið nánar í þessi sjónarmið mín, hæstv. forseti. Hér hafa þingmenn lokið upp einum rómi um ágæti embættisins sem Tryggvi Gunnarsson gegnir, embætti umboðsmanns Alþingis og hafa mært hann fyrir það hversu vel hann standi að málum og hversu góðum skýrslum hann skilar. Þessi skýrsla fyrir árið 2006 er engin undantekning.

Ég er sannfærð um það, virðulegi forseti, að starf umboðsmanns Alþingis hefur skilað mjög miklum árangri í stjórnsýslunni. Ég hef þá trú að þeir sem starfa í stjórnsýslunni lesi þessa skýrslu. Ég tel þó að árangur af starfi umboðsmanns Alþingis mætti vera betri þegar horft er til starfs löggjafarsamkundunnar, þ.e. þeirrar ábyrgðar sem við berum á herðum okkar. Ég er talsmaður vandaðra vinnubragða og tel að svo sé um fleiri þingmenn, m.a. þá sem talað hafa í þessari umræðu núna. Menn eru einhuga um að við eigum að stunda vönduð vinnubrögð. Ég er líka á því að það sé af hinu góða að breyta vinnubrögðum, endurnýja það hvernig við nálgumst hlutina. Ég tel að það skili oft betri árangri eða nýjum sjónarhornum. Ég ætla enn að vona að sú breyting sem gerð var á þingskapalögunum í fyrra verði til þess að við náum að fóta okkur í því mikla verkefni sem Alþingi fær á hverju ári upp í hendurnar með skýrslu umboðsmanns Alþingis.

Hv. þm. Ellert B. Schram hvatti í ræðu sinni áðan til þess að þessi umræða yrði ekki endapunktur á umræðu um skýrslu umboðsmanns Alþingis frá árinu 2006. Ég tek undir þá hvatningu. Ég tel að þessi skýrsla eigi áfram að vera, ekki bara á borðum allsherjarnefndar heldur á borðum þeirra sem starfa í stjórnsýslunni, á borðum ráðherra, á borðum allra sem hlut eiga að máli í þessu og tek því undir þau vonbrigði sem menn hafa lýst með að ráðherrar skuli ekki sitja á ráðherrabekkjunum og hlusta á þessa umræðu. Það eitt gefur mér til kynna að hér sé ekki um ný vinnubrögð að ræða. Venjulega þegar við ræðum skýrslu umboðsmanns Alþingis taka sex til átta þingmenn til máls. Nákvæmlega sama er upp á teningnum núna. Núna hafa sex þingmenn talað. Ég held að það séu einn eða tveir á mælendaskrá á eftir mér. Eini munurinn er sá að hv. formaður allsherjarnefndar fylgdi skýrslunni úr hlaði en hingað til hefur það verið forseti Alþingis.

Það sátu engir ráðherrar á bekkjunum í fyrra heldur og ekki í hittiðfyrra að ég held og ekki árið þar áður. Þeir sitja hér ekki heldur núna og ég spyr: Hver eru þá nýju vinnubrögðin? Hvað er það sem við ætlum að innleiða hér? Er að form eða innihald? Í mínum huga skiptir mestu máli að nýbreytni hafi eitthvert innihald og við sameinumst um aðgerðir. Þessu hef ég kallað eftir í hvert einasta sinn sem ég hef tekið til máls um skýrslu umboðsmanns Alþingis, að aðgerðir fylgi orðum þegar við ræðum þau álitaefni sem umboðsmaður hreyfir í skýrslum sínum.

Ég er sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um að tilefni sé til að dýpka umræðuna. En ég tel ekki að þessi umræða sýni svo óyggjandi sé að það verði áframhald eða dýpkun á umræðunni. Ég er líka sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um að það þurfi að móta betur hvernig tekið verði á málum í framtíðinni. Ég teldi að hv. allsherjarnefnd hefði átt að hafa í höndunum nú þegar stefnumótun sem hefði verið kynnt í þessari umræðu. Ég nenni ekki að bíða þangað til á næsta ári eftir mótun nýrrar stefnu í þessum efnum. Við verðum að gæta okkar á því að hér verði ekki eitthvert innihaldslaust hjal eina ferðina enn um alvarleg álitaefni sem umboðsmaður hreyfir í skýrslum sínum.

Ég tók það fram í andsvari mínu áðan að ég hefði ekki lesið skýrsluna og ég tel það mjög miður. Ég tel mig þess vegna vanbúna til að ræða um innihald hennar að öðru leyti en því að ég hef rennt augunum yfir V. kafla og VI. kafla í inngangi skýrslunnar. Þar er fjallað um áhugaverða þætti, annars vegar um samninga í stað ákvarðana og reglna, sem er yfirskrift V. kafla og hins vegar er rætt um í VI. kafla að hverju athugasemdir og álit umboðsmanns Alþingis hafi beinst á árunum 2000 og 2006. Hvort tveggja eru afar athyglisverðir kaflar og hvor um sig útheimtir mikla vinnu af okkar hálfu og umræður. Í þessum töluðu orðum langar mig að biðja um, og ég mun gera það formlega á eftir, umræðu utan dagskrár um V. kafla í skýrslunni sem fjallar um samninga sem stjórnvöld gera í auknum mæli eins og þau séu frjálsir viðskiptaaðilar á markaði, sem þau eru ekki. Hér er gríðarlega alvarlegt mál á ferðinni og koma upp í hugann kosningavíxlar og loforð rétt fyrir kosningar í vor. Ég tel tilefni til að við þingmenn höldum áfram að ræða það sem umboðsmaður ber á borð fyrir okkur og spinna þann þráð sem hann leggur upp í hendurnar á okkur.

Ég bendi á, hæstv. forseti, eftir að hafa rifjað upp umræðuna frá í fyrra, að við þurfum að gæta okkar á því að umræðan hafi innihald. Hugur verður að fylgja máli og aðgerðir þeim orðum sem við höfum á hverju ári látið falla í þessum umræðum. Ég velti fyrir mér nokkrum þáttum skýrslunnar frá í fyrra og umræðunnar í fyrra. Mig langaði að velta því upp hvort við hefðum eitthvað gert með þau mál sem við hétum sjálfum okkur að sinna í fyrra eða hvort það hefði kannski bara legið í láginni síðan. Ég ætla að nefna af handahófi nokkur atriði.

Í skýrslunni sem flutt var 2006 og fjallaði um árið 2005 segir að stærsti einstaki málaflokkurinn sem umboðsmaður hafi fengist við hafi verið tafir á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum. Ég veit að þetta hljómar kunnuglega í eyrum þeirra sem fjölluðu um þá skýrslu sem nú hefur verið til umfjöllunar. Þetta hljómaði kunnuglega í eyrum okkar í fyrra. Við höfum fjallað um þetta umtalsefni á fyrri þingum. Umboðsmaður hafði bent okkur á þetta áður. Aftur og aftur hafði hann komið inn á þessi atriði. Ég verð að segja fyrir mig að við höfum haft tækifæri til að taka upp umræðuna og efna til aðgerða í þeim efnum en höfum ekki látið kné fylgja kviði. Það hefur því ekki tekist að fækka þessum málum sem hafa verið svona fyrirferðarmikil hjá umboðsmanni. Við höfum kannski látið hana okkur í of léttu rúmi liggja.

Í skýrslu sinni fyrir árið 2005 gerði umboðsmaður stjórnsýslumat vegna lagafrumvarpa að sérstöku umtalsefni, sem mér fannst afar athyglisvert. Hann varpaði þá fram þeirri hugmynd að við framlagningu lagafrumvarpa á Alþingi gæti fylgt þeim auk hefðbundins kostnaðarmats, sem við þekkjum öll, sérstakt stjórnsýslumat. Þá kæmi fram greining á áhrifum frumvarpsins á verkefni stjórnsýslunnar og hvaða breytingar þyrfti að gera á stjórnsýslunni, á verklagi, fjölda starfsmanna eða öðru af því tagi. Einnig var talað um að slíkt mat gæti falið í sér greiningu á samspili verkefna og ákvarðana, sem viðkomandi frumvarp fæli í sér, við almennar reglur í stjórnsýslu og upplýsingalögum.

Umboðsmaður benti okkur, í þeirri skýrslu sem ég vitna til, á að með þessum hætti ætti stjórnsýslan auðveldara með að átta sig á því fyrir fram hvernig bregðast ætti við nýjum verkefnum. Það væri afar þarft og Alþingi ætti auðveldara með að átta sig á því hvort frumvarpið einfaldaði stjórnsýsluna eða hvort tilefni væri til að auka umfang hennar. Síðast en ekki síst yrði kostnaðarmatið sem fylgdi frumvörpunum mun nákvæmara, ef það byggði á slíku stjórnsýslumati, enda gerði umboðsmaður ráð fyrir því að stjórnsýslumatið yrði lagt fram áður en kostnaðarmatið yrði gert.

Nú tel ég fyllilega tímabært í þessari umræðu, virðulegi forseti, að spyrja hvað gert hafi verið í þessum efnum, hvað forseti Alþingis og hvað ríkisstjórnin hafi gert í þessum efnum með bara þetta eina tiltekna atriði í ábendingum frá síðasta ári. Ég held raunar að ég geti svarað spurningunni sjálf. Ég hef starfað á Alþingi síðan. Ég vil benda þingmönnum á að við höfum til umfjöllunar í þinginu afar viðamikið frumvarp, stóran og mikinn bandorm frá ríkisstjórninni um breytingar á ýmsum lögum og tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, mjög viðamikið mál. Hvar er stjórnsýslumatið í því máli? Auðvitað er það hvergi. Auðvitað er ekkert stjórnsýslumat hér og ekki einu sinni kostnaðarmat. Það er ekki gert ráð fyrir því að þessar breytingar eigi að kosta neitt. Þetta dæmi er til marks um að ríkisstjórn og forseti Alþingis hlustuðu ekki á umræðuna um skýrslu umboðsmanns á síðasta ári. Ef þau hlustuðu, ætluðu þau sér ekki að gera neitt með niðurstöðurnar, eða hvað? Ég bið um að mér verði svarað hafi ég hef rangt fyrir mér. Ég spyr: Hvar eru efndir þeirra orða sem viðhöfð voru í umræðunni á síðasta þingi? Ætlum við að láta taka okkur í bólinu aftur að ári þegar farið verður yfir skýrsluna sem við ræðum núna og hið nákvæmlega sama kemur í ljós. Þetta verðum við að laga. Það stendur upp á okkur öll að gera það, okkur í nefndunum, í einstökum þingflokkum, það stendur upp á ríkisstjórnina, en síðast en ekki síst stendur það upp á forseta Alþingis og forsætisnefnd.

Virðulegur forseti. Hér hafa verið nefndar frumkvæðisathuganir umboðsmanns. Þær eru mjög athyglisverðar. Ég er sleðinn í hópnum og ekki búin að lesa skýrslu ársins í ár. En ég las skýrsluna frá því í fyrra afar vel og frumkvæðisathuganir sem voru gerðar þá. Þær fjölluðu annars vegar um afgreiðslutíma 48 sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda. Við höfðum orð á því að þær væru allt of margar í kerfinu að gera þyrfti eitthvað í því að breyta þessu, þetta væri svo óskilvirkt. Hin athugunin sem umboðsmaður gerði að eigin frumkvæði og gaf okkur skýrslu um í fyrra varðaði skráningu afgreiðslumála hjá 32 stjórnvöldum, samanburður fyrir árið 2002 og 2006.

Nú verð ég að segja, virðulegi forseti, að ég tel að þessar athuganir hefðu átt að vera á okkar borðum stanslaust frá því að við ræddum skýrsluna fyrir ári. En svo hefur ekki verið. Í fyrri athuguninni kemur fram að stjórnvöld skrá mál með skipulegum hætti og af könnunum á afgreiðslu erinda má ráða að stjórnsýslan sé fremur skilvirk og afgreiði megnið af þeim erindum sem henni berast á nokkuð skömmum tíma. Þó getur verið nokkur misbrestur á því að þau svari erindum innan eðlilegra tímamarka og einhver dæmi finnast um að mál hafi hreinlega dagað uppi. Í athuguninni sem um ræðir kom fram að tvö ráðuneyti hefðu sett sér skráðar reglur um málshraða á þarsíðasta ári, sem ekki hefðu verið til staðar áður, sex ráðuneyti höfðu einhvers konar viðmið eða höfðu einhvers konar málsbætur í þessum efnum en fjögur ráðuneyti höfðu hvorki sett sér reglur né viðmið árið 2006. Nú spyr ég: Hver er staðan nú? Hafa þessi fjögur ráðuneyti, sem voru rassskellt í athugun umboðsmanns í fyrra gert einhverja bragarbót? Var farið ofan í það hjá allsherjarnefnd eða getur forseti svarað fyrir um það? Hefur hann fylgst með ráðherrunum? Ekki eru ráðherrarnir hér til að svara fyrir sig. Mögulega kemur þetta fram í skýrslunni sem ég hef ekki lesið. Ég skal ekki taka fyrir það.

Í seinni athuguninni sem umboðsmaður gerði í fyrra að eigin frumkvæði segir að fjöldi erinda sem sjálfstæðar stjórnsýslu- og úrskurðarnefndir beri sé vaxandi og þar kemur fram að helmingur nefndanna hafi afgreiðslutíma sem mælt er fyrir um í lögum, þ.e. lagaskyldu um hversu lengi þau megi vera með málin til afgreiðslu og að þessar nefndir nái einungis að afgreiða tæpan helming þeirra mála sem bárust á tímabilinu sem skoðað var innan hins lögbundna frests. Helmingur nefndanna náði að vinna innan hins lögbundna frests og í athuguninni komu fram vísbendingar um að málsmeðferðartími stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda væri almennt að lengjast. Umboðsmaður benti okkur þá á að það væri hans mat að ástæða væri til að tilkynna málsaðilum tafir á vinnslu í um það bil 800 málum á því tímabili sem könnunin tók til en það hafði einungis verið gert í 75 tilfella. Í minna en 10% tilvika hafði verið tilkynnt til þess sem kvörtunina bar fram að um tafir væri að ræða og hverjar ástæður þess væru. Nú spyr ég: Hvað hafa ráðherrar og við þingmenn gert til að bæta þetta ástand frá því að okkur var kynnt það á síðasta ári?

Hér hef ég lagt fram margar spurningar sem spanna tímabilið sem liðið er frá því að við ræddum síðast skýrslu umboðsmanns Alþingis. Ég vona að ég fái svör frá ríkisstjórn og ráðherrum í síðari umræðunni.