135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[13:35]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna um þá skýrslu sem hér liggur fyrir frá umboðsmanni Alþingis og vil byrja á að segja að mönnum hefur orðið tíðrætt um fjarveru ráðherra í umræðunni. Vera kann að það sé rétt að mikilvægt sé að ráðherrar séu viðstaddir umræðuna en ég tel ekki síður mikilvægt að þingmenn allir séu viðstaddir og taki þátt í umræðum um þetta stóra mál.

Ég hef setið hér frá því að umræðan hófst í morgun og fylgst nokkuð vel með og hlustað á hana og ég verð að segja að mér hefur þótt nokkuð vanta á að þessi mikla og vandaða skýrsla sé rædd — ég vil leyfa mér að orða það þannig og ég vona að ég móðgi enga hv. þingmenn þegar ég segi það — með markvissari og málefnalegri hætti en gert hefur verið hér. Þingmenn hafa m.a. komið upp og talað um að þeir hafi ekki lesið skýrsluna en séu engu að síður komnir í ræðustól Alþingis til að ræða hana efnislega. Ég held að þetta sé eitthvað sem við eigum öll að taka til endurskoðunar og taka til okkar. Ég held að embætti umboðsmanns Alþingis og allt starfslið þess eigi meira skilið af hv. Alþingi en að umræðan fari fram á þann hátt sem hún gerði í morgun.

Kannski má segja að ég sjálf sé ekki undanskilin hvað þetta varðar en ég notaði þó tímann frá því ég kom í morgun til að lesa skýrsluna svo langt sem ég komst á þessum stutta tíma. Segja má að ræða hv. þm. Ellerts B. Schrams hafi kveikt í mér löngun til að koma hér upp og ræða þessa skýrslu því að eins og hv. þingmaður benti á skiptir auðvitað lýðræðið og eftirlit með stjórnsýslunni og réttindum borgaranna gríðarlega miklu máli. Ég tel það hafa verið mikið framfaraskref á sínum tíma að stofna embætti umboðsmanns Alþingis og það má kannski orða það þannig að við höfum í raun og veru stigið þar eitt skref til nútímavæðingar í stjórnsýslu okkar.

Þegar ég starfaði á vettvangi Reykjavíkurborgar komu upp hugmyndir um að stofna embætti umboðsmanns borgarbúa. Við létum skoða það gaumgæfilega á sínum tíma. Niðurstaðan var sú að gera það ekki heldur líta frekar til þess að beina slíkum erindum til umboðsmanns Alþingis ef einhverjir borgarar teldu brotið á rétti sínum.

Af því að hér hefur líka komið til tals hvort stofna ætti embætti fleiri umboðsmanna, eins og t.d. embætti umboðsmanns aldraðra eða öryrkja eða eitthvað slíkt, þá er ég ekki endilega viss um að það sé rétta leiðin. Ég held að miklu nær sé að efla og styrkja embætti umboðsmanns Alþingis til að það embætti geti frekar sinnt fleiri skyldum sínum. Það er auðvitað mjög mikilvægt, eins og hefur komið fram í umræðunni, að almenningur geti leitað til umboðsmanns telji fólk á sér brotið að einhverju leyti og þurfi ekki ætíð að leita til dómstóla með sín mál.

Það eru nokkur atriði í skýrslunni sem mig langar að koma inn á og ræða hér. Á bls. 31 í skýrslunni er yfirlit eða flokkun á athugasemdum í álitum umboðsmanns Alþingis á árunum 2002 og 2006. Það vekur mikla athygli að tæplega 52% málanna eru málsmeðferðarreglur, þ.e. þar sem umboðsmaður Alþingis gerir athugasemdir við málsmeðferð stofnana, ráðuneyta og nefnda.

Þetta vakti athygli mína vegna þess að ég hef um langa hríð verðið mikil áhugamanneskja um nefnd nokkra sem heitir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Hún er ein af þeim úrskurðarnefndum sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði að umtalsefni í ræðu sinni og er ein af þeim nefndum sem umboðsmaður Alþingis gerði athugasemd við í skýrslu sinni fyrir ári, þ.e. við þann langa tíma sem það tekur fyrir borgarana að fá úrlausn sinna mála hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Á bls. 19 í skýrslunni kemur fram að umboðsmaður hafi fengið upplýsingar frá úrskurðarnefndinni í maí 2006 um að á þeim tíma biðu 86 mál hjá nefndinni sem henni höfðu borist á árunum 2003–2005, 86 mál sem höfðu beðið í kannski 2–3 ár eftir afgreiðslu nefndarinnar. Við skulum átta okkur á að það getur oft skipt gríðarlega miklu máli fyrir einstaklinga sem eru með mál hjá úrskurðarnefndinni að þurfa að bíða úrlausnar í svona langan tíma.

Eftir að umboðsmaður gerði athugasemd við þetta hjá umhverfisráðuneytinu fékk nefndin fjárveitingu til þess að ráða lögfræðing tímabundið til að grynnka á málafjöldanum en engu að síður, og það kemur líka fram í skýrslunni, voru enn 1. janúar 2007, þ.e. á þessu ári, 75 mál óafgreidd sem komin voru fram yfir lögmæltan afgreiðslutíma eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta. Reyndar er athyglisvert að sjá að málunum sem nefndinni berast hefur heldur fækkað, málin voru 97 á árinu 2006 en árið áður voru þau 107. Ég þekki sjálf mjög mörg dæmi um mál sem hafa strandað í kerfinu hjá þessari úrskurðarnefnd. Mér finnst þetta ágætis áminning fyrir okkur sem hér störfum að taka til endurskoðunar starfsemi slíkra úrskurðarnefnda og ef eitthvað er hygg ég að þessum nefndum hafi fjölgað frekar í kerfinu en fækkað.

Ég hygg að það hafi verið þannig, herra forseti, ef mig misminnir ekki, að hv. þáverandi þingmaður, Hjörleifur Guttormsson, hafi flutt um það þingmál hér á árum áður að stofna úrskurðarnefndir einmitt í þeim tilgangi að auðvelda fólki að geta skotið málum sínum til slíkrar nefndar frekar en að leita til dómstóla. Maður skilur auðvitað þá hugsun, hún er göfug og falleg, en hvaða árangri skilar hún þegar fólk þarf að bíða svona lengi eftir úrskurðum? Í tilfelli þessarar nefndar, úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er stundum um að ræða skipulagsmál sem þegar eru komin til framkvæmda. Ég þekki eitt mál sem skotið var til nefndarinnar og þegar það var afgreitt — það var kæra á húsbyggingu á tilteknum stað í Reykjavík — þegar úrskurðarnefndin skilaði því af sér var löngu búið að byggja húsið. Svona vinnubrögð ganga auðvitað alls ekki.

Á bls. 105 í skýrslunni, um stjórnsýslunefndirnar, kemur fram að ítrekað hafi komið í ljós að þrátt fyrir að í ýmsum tilvikum sé það bundið í lög hversu langan tíma þessar nefndir hafi til að afgreiða mál eða kveða upp úrskurði hafi afgreiðslutími sumra þeirra verið verulega langur. Þetta á því ekki bara við um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála heldur miklu fleiri nefndir. Ég nefni þetta hér, herra forseti, vegna þess að það er skammur tími sem við höfum til að ræða skýrsluna að þessu sinn, en mér finnst þetta vera mál sem við eigum að ræða í þinginu, taka til athugunar og koma með tillögur til úrbóta, því að það er svo margt, margt fleira í skýrslu umboðsmanns sem er ábending til okkar sem förum með löggjafarvaldið í þinginu, ábendingar um eitthvað sem við eigum að taka til okkar og við eigum að breyta. Þess vegna vil ég segja að lokum að ég hefði kosið að fleiri þingmenn hefðu almennt blandað sér í umræðuna um skýrslu umboðsmanns Alþingis en raunin hefur verið í dag. En eigum við ekki að vona að þetta sé allt í áttina og ég sé að hv. þingmönnum er að fjölga í salnum þannig kannski ætla fleiri að ræða um hana hér?