135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[13:48]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna sem hann bar upp til mín úr ræðustól.

Fyrst vil ég taka fram að það mátti ekki skilja orð mín þannig að ég efaðist um fagleg vinnubrögð úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál. Ég þekki það að hún vinnur faglega. Það er hins vegar ólíðandi fyrir þá aðila, oft og tíðum eru það einstaklingar sem eru með mál hjá þessari nefnd, að málsmeðferðin þurfi að taka svo langan tíma, allt upp í 2–3 ár. Þess vegna get ég að sjálfsögðu svarað spurningu hv. þingmanns um hvort ég muni beita mér fyrir þessu máli játandi. Ég tel að við verðum að skoða þetta kerfi vegna þess að óskilvirkni úrskurðarnefnda er einfaldlega ekki líðandi. Hvort svarið er þá endilega það að fara dómstólaleiðina skal ég ekki segja til um en svarið við spurningu hans er já. Ég mun beita mér fyrir því að skoða þetta kerfi og ef lausnin í málum þessara úrskurðarnefnda er sú að setja meira fjármagn í þær, oftast í formi launagreiðslna til lögfræðinga sem sinna störfum nefndanna, þá er sjálfsagt að skoða það.