135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[13:50]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi orð hv. þingmanns alls ekki þannig að hún efaðist um fagleg vinnubrögð nefndarinnar, svo ég haldi því til haga. Hins vegar eru nefndinni, af því að hún hefur verið gerð að umtalsefni, falin gríðarlega umfangsmikil mál, þ.e. skipulagsmál í þéttbýli, um úthlutun lóða eða breytingar á skipulagi og ég veit ekki hvað.

Síðan koma mál sem eru enn umfangsmeiri og mjög erfið umfjöllunar svo sem skipulagsmál á grundvelli umhverfismats, virkjanaáforma og margt fleira í þeim dúr. Slík mál eru ótrúlega erfið viðfangs. Þau kalla á mikla þekkingu og sérfræðivinnu. En hyggist ríkisstjórnin breyta þessu fyrirkomulagi þá treysti ég dómstólum betur en úrskurðarnefndum af því að margar þeirra starfa, og það hef ég gagnrýnt, ekki eftir fyrir fram uppgefnum réttarfarsreglum eins og dómstólar. Það vantar töluvert í það umhverfi. Auðvitað starfa þeir samkvæmt stjórnsýslulögum en það vantar meira.

Ég skora á hv. þingmann og jafnframt á flokk hennar að beita sér fyrir skoðun á þessu meðan sú endurskoðun fer fram og þær breytingar sem þörf er á að gera. Ég skora jafnframt á hv. þingmann og hv. formann fjárlaganefndar að sjá til þess að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála verði sköpuð umgjörð og fjármagn sem dugi til að leiðrétta þann halla sem er á afgreiðslu mála. Það mundi duga.