135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[13:54]
Hlusta

Frsm. fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mun gera grein fyrir áliti fjárlaganefndar um ársskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir starfsárið 2006 og um leið fjalla örlítið um þær upplýsingar sem koma fram í umræddri skýrslu. Að öðru leyti vil ég víkja að orðum hæstv. forseta við setningu þingfundar. Hæstv. forseti kynnti þá skýrslur sem nú eru til umræðu á Alþingi, annars vegar skýrslu Ríkisendurskoðunar og hins vegar skýrslu umboðsmanns Alþingis.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2006 hefur að sjálfsögðu verið tekin til umfjöllunar af öðrum en okkur enda er hún opin hverjum sem vera vill. Hver og einn getur nálgast hana á vef Ríkisendurskoðunar eða fengið hana útprentaða og þingmenn hafa allir fengið skýrsluna senda. Hv. fjárlaganefnd tók skýrsluna til umfjöllunar í framhaldi af umræddri nýbreytni, sem hæstv. forseti kom að í morgun, og hefur sent frá sér álit, sameiginlegt álit allra nefndarmanna. Með leyfi forseta vil ég gera grein fyrir álitinu, en þar segir:

„Fjárlaganefnd hefur fjallað um skýrslu Ríkisendurskoðunar á fundi og fengið ríkisendurskoðanda til fundar við sig. Skýrslan er í senn starfsskýrsla til þingsins og samantekt á upplýsingum um þau mál sem stofnunin hefur fjallað um á árinu 2006 og telur rétt að kynna Alþingi. Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis og endurskoðar ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins. Enn fremur annast stofnunin eftirlit með framkvæmd fjárlaga og er þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins. Ríkisendurskoðun er engum háð í störfum sínum. Forsætisnefnd getur þó ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar.“

Eins og skýrslan ber með sér eru viðfangsefni Ríkisendurskoðunar fjölbreytt. Stofnunin varði 58% allra virkra vinnustunda til fjárhagsendurskoðunar, 17% til stjórnsýsluendurskoðunar, 6% til innra eftirlits og 6% til endurskoðunar upplýsingakerfa. Um 6% tímans var varið til verkefna á laga- á umhverfissviði og 7% til yfirstjórnar og annarra verkefna, m.a. gæðaeftirlits og aðstoðar við önnur svið stofnunarinnar.

Það er mikilvægt fyrir fjárlaganefnd og þingmenn að fá skýrslu með innsýn í eftirlitsstarfsemi Ríkisendurskoðunar. Slíkar upplýsingar eru til þess fallnar að styrkja það sjálfstæða eftirlitshlutverk sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Undir þetta álit fjárlaganefndar skrifa auk þess sem hér talar hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson, Guðbjartur Hannesson, Jón Bjarnason, Illugi Gunnarsson, Bjarni Harðarson, Ásta Möller, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Ármann Kr. Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir.

Herra forseti. Samkvæmt lögum um starfsemi Ríkisendurskoðunar ber henni að semja skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi. En Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis, sbr. lög um Ríkisendurskoðun nr. 86 frá 1997. Ríkisendurskoðun skal endurskoða ríkisreikning og reikninga fyrir aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins, sbr. 43. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 33 frá 1944. Eins og getið er um í áliti fjárlaganefndar getur Ríkisendurskoðun einnig framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun skv. 9. gr. umræddra laga.

Eins og segir í lögum um Ríkisendurskoðun skal hún jafnframt annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga og vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins. Ég vil í ljósi fyrri umræðu hér á þingi og annars staðar, til að mynda í tengslum við umræðu um fjárlög og fjáraukalög, víkja sérstaklega að því að þingheimi og ekki síður fjárlaganefnd ber að virða það mikla verkefni sem Ríkisendurskoðun hefur varðandi eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Fjárlaganefnd hefur einsett sér að skoða þau mál með breyttum áherslum og hefur tekið það sérstaklega fyrir og er að fylgja því eftir.

Ársskýrslan er, eins og áður var sagt, fyrir árið 2006, fyrir síðasta ár, og var hún gefin út og birt í marsmánuði sl. Kannski má segja að það skjóti skökku við að standa hér um miðjan nóvembermánuð og fjalla um skýrslu sem gefin var út á vormánuðum. En skýrslan er gefin út með sama hætti og gert hefur verið á liðnum árum og vil ég hvetja þá þingmenn sem ekki hafa kynnt sér efni hennar til að gera það. Skýrslan er efnismikil og mjög ítarlega er farið yfir starfsemi Ríkisendurskoðunar. Skýrslunni er skipt upp í nokkra kafla þannig að hún er mjög læsileg.

Skýrslan er í meginatriðum með hefðbundnu sniði. Í henni er m.a. gerð grein fyrir starfsskyldum stofnunarinnar, starfsemi hennar á árinu 2006, markmiðum með endurskoðun og leiðum að því marki, en jafnframt er gerð stutt grein fyrir þeim skýrslum, leiðbeiningarritum og greinargerðum sem stofnunin gaf út á árinu og fyrir starfi einstakra sviða hennar. Þá er gerð sérstök grein fyrir ýmsum kennitölum um umsvif og árangur Ríkisendurskoðunar á árinu 2006.

Skýrslan geymir einnig nokkrar greinar þar sem nánar er vikið að tilteknum þáttum í starfi stofnunarinnar, verkefnum hennar og áherslum. Þar á meðal er grein um eftirlit stofnunarinnar með þeirri þjónustu sem jafnt opinberir aðilar, sveitarfélög, og einkaaðilar veita almenningi en ríkið greiðir fyrir að hluta til eða að öllu leyti. Í þeirri umfjöllun er m.a. fjallað um viðleitni stofnunarinnar til að meta hvernig að þjónustunni er staðið og hvort unnt sé eða jafnvel nauðsynlegt að efla hana eða bæta á einhvern hátt.

Herra forseti. Ég vék örlítið að umfangi Ríkisendurskoðunar í áliti fjárlaganefndar. Í því áliti er gerð grein fyrir því hvernig vinnutíma stofnunarinnar er varið. Segja má að starfsemi Ríkisendurskoðunar á árinu 2006 og afrakstur hafi í meginatriðum verið með svipuðum hætti og á árinu 2005. Stofnunin skilaði álíka mörgum ársverkum bæði árin, eða rúmum 49. Ríkisendurskoðandi gerði hv. fjárlaganefnd grein fyrir því að óvenjumiklar breytingar hefðu orðið í starfsmannahaldi þetta ár og varð starfsmannaveltan um 15%.

Rétt er að geta þess að fjárheimildir Ríkisendurskoðunar eru markaðar í fjárlögum og fjáraukalögum og námu á árinu 2006 alls 393 millj. kr. og hækkuðu um 9,2% frá árinu á undan. Rekstrargjöld stofnunarinnar, að frádregnum tekjum af seldri þjónustu, námu rúmum 373 millj. kr. á árinu 2006 og hækkuðu um 31 millj. kr. eða 9,1%. Rekstur stofnunarinnar varð því 20 millj. kr. innan fjárheimilda ársins.

Í 5. gr. laga um Ríkisendurskoðun, nr. 86 frá 1997, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Reikningar Ríkisendurskoðunar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem tilnefndur er af forsætisnefnd Alþingis. Reikningsskil Ríkisendurskoðunar skulu birt í ríkisreikningi.“

Í umræddri ársskýrslu er lagður fram ársreikningur stofnunarinnar og staðfesting á honum. Ríkisendurskoðandi og skrifstofustjóri staðfesta ársreikninginn með undirritun sinni, þeir Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi og Sveinn Arason skrifstofustjóri, en jafnframt er reikningurinn áritaður af Gunnari Sigurðssyni endurskoðanda og þar segir, með leyfi forseta:

„Endurskoðað var í samræmi við ákvæði laga um Ríkisendurskoðun og góða endurskoðunarvenju en í því felst m.a.:

að sannreyna að ársreikningurinn sé í öllum meginatriðum án annmarka,

að kanna innra eftirlit og meta hvort það tryggir viðeigandi árangur,

að kanna hvort reikningar séu í samræmi við heimildir fjárlaga, fjáraukalaga og annarra laga, lögmæt fyrirmæli, starfsvenjur og rekstrarverkefni þar sem við á og

að kanna og votta áreiðanleika kennitalna um umsvif og árangur af starfseminni ef þær eru birtar með ársreikningi.“

Álit Gunnars Sigurðssonar endurskoðanda er eins og hér segir, með leyfi herra forseta:

„Það er álit mitt að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu Ríkisendurskoðunar á árinu 2006, efnahag 31. desember 2006 og breytingu á handbæru fé á árinu 2006 í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju fyrir A-hluta stofnanir.“

Og eins og komið hefur fram hefur ársreikningurinn að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, sjóðstreymi og skýringar reiknings til upplýsingar fyrir þá sem vilja kynna sér efni rekstrarfyrirkomulags Ríkisendurskoðunar. Að öðru leyti mun ég ekki fara yfir hvernig rekstrarkostnaðurinn skiptist eða einstaka þætti þó með tilvísun til þess sem ég hef áður sagt um fjárheimildir Ríkisendurskoðunar og hvernig rekstrargjöld þróuðust.

Ég vék örlítið að stöðugildum og starfsmannahaldi með tilliti til starfsmannaveltu fyrr í ræðu minni. Í árslok 2006 voru starfsmenn Ríkisendurskoðunar 47 eða tveimur færri en í árslok 2005. Unnin ársverk urðu engu að síður nánast jafnmörg og árið 2005 eða rúm 49. Í skýrslunni kemur m.a. fram að af fastráðnum starfsmönnum voru karlmenn 27, eða 57%, og konur 20, eða 43%. Það hlutfall er svipað og þrjú undanfarin ár þar á undan.

Til að þingheimur geti gert sér grein fyrir því hvert umfang stofnunarinnar er þá er rétt að geta þess að á árinu 2006 skiluðu starfsmenn alls 72.600 vinnustundum við endurskoðun og að auki keypti stofnunin þjónustu af alls 14 endurskoðunarskrifstofum sem svaraði til tæplega 3.700 vinnustunda. En líkt og jafnan áður ver stofnunin mestum tíma til fjárhagsendurskoðunar, eins og kemur fram í áliti fjárlaganefndar, 58% allra virkra vinnustunda.

Í skýrslunni kemur fram að miðað við flestar aðrar systurstofnanir í nágrannalöndum okkar er hlutfall fjárhagsendurskoðunar fremur hátt hjá Ríkisendurskoðun enda áritar hún ársreikninga flestra stofnana og fyrirtækja ríkisins. Í öðrum löndum láta sambærilegar endurskoðunarstofnanir sér yfirleitt nægja úrtak. Hjá þeim er hlutur stjórnsýsluendurskoðunar oftast stærri en hér á landi.

Rétt er að taka það upp og birta hér upplýsingar um það hvernig umfangið í umræddri áritun er. Á árinu 2006 áritaði Ríkisendurskoðun alls 337 ársreikninga og samdi 241 endurskoðunarskýrslu. Er það sambærilegt og árið þar á undan en þess ber að geta í þessu sambandi að ríkisaðilar í ríkisreikningi eru um 400. Umfang í starfsemi Ríkisendurskoðunar varðandi áritun og varðandi fjárhagsendurskoðunarþáttinn er gríðarlega mikið.

Við fjárhagsendurskoðun hefur Ríkisendurskoðun á undanförnum árum lagt áherslu á að kanna valin atriði í starfsemi stofnana og fyrirtækja ríkisins sem varða starfsmenn þeirra, aðföng, umsýslu með fé og innra eftirlit. Þessi atriði hafa, líkt og er í góðri endurskoðunarvenju, verið mismunandi frá einu ári til annars, allt eftir mati á mikilvægi þeirra og áhættunni sem tengist þeim. En í grundvallaratriðum miðar slík athugun þó ævinlega að því sama, að auka aðhald í ríkisrekstri, bæta umhirðu með eignum og fjármunum hins opinbera og efla innra eftirlit stofnana ríkisins.

Athugun getur byggst á úrtaki innan allra þeirra stofnana sem endurskoðaðar eru og slíkt úrtak gefur nokkuð góða mynd af því hvernig þessum málum er almennt varið. Gerð er grein fyrir niðurstöðum þessara athugana, m.a. í skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings fyrir 2005 og síðan í skýrslu sem við höfum nýlega fengið kynnta í fjárlaganefnd fyrir ríkisreikning árið 2006. Vil ég nota tækifærið til að þakka starfsmönnum og ríkisendurskoðanda fyrir slíkar athuganir. Þær gefa okkur sem erum að fjalla um fjárveitingar, fjárheimildir og fjárlög hverju sinni mjög góðar upplýsingar um ýmislegt sem fer fram í ríkisrekstrinum.

Í skýrslunni er einnig fjallað um stjórnsýsluúttektir og vil ég ekki nota tíma minn sérstaklega í að tiltaka þær. En þær skýrslur veita ekki aðeins sértækar upplýsingar um tilteknar stofnanir heldur einnig um stöðu þeirra innan hvers málaflokks. Ég hvet alla til að kynna sér þær þar sem hægt er að nálgast þær.

Hins vegar ber að geta þess hér að í tengslum við innra eftirlit var lokið við níu skýrslur á árinu 2006 tengdar nánar tilteknum stofnunum ríkisins. Tvær þeirra lutu m.a. að tilteknum þáttum í tekjubókhaldskerfi ríkisins en sú þriðja fjallaði um fasteignamat ríkisins. Ég vil einnig vekja athygli á því að þessi þáttur hefur haldið hér áfram. Áhugi almennings á opinberum skýrslum Ríkisendurskoðunar er mikill og hefur aukist verulega á undanförnum árum. Sem dæmi voru þær 212 skýrslur sem birtar eru á heimasíðu Ríkisendurskoðunar opnaðar rúmlega 31 þúsund sinnum á árinu 2006 eða að jafnaði 150 sinnum á dag og þætti einhverjum það gott innlit. En stofnunin hefur stigið þau skref að gera öllum jafnt undir höfði með að afla sér þessara upplýsinga og hvatt aðila til að nálgast þær.

Við höfum vissulega á þessu ári, við þingmenn í fjárlaganefnd, fengið fleiri skýrslur til umfjöllunar. Ég vil sérstaklega vekja athygli á skýrslu um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2006 sem er enn í meðferð hjá fjárlaganefnd. Við höfum fengið kynningu á henni frá ríkisendurskoðanda og munum við skila sérstöku áliti um þá skýrslu. Við erum með í kynningu og meðferð, eins og ég kom að áðan, ríkisreikning vegna ársins 2006 og sérstaka skýrslu og yfirferð ríkisendurskoðanda vegna hans. Fjárlaganefnd á eftir að fjalla um tvær skýrslur sem nýlega hafa komið út, annars vegar vegna St. Jósefsspítala og Sólvangs í Hafnarfirði og hins vegar vegna Heilbrigðisstofnunar Austurlands, við eigum eftir að fjalla um þær skýrslur og veita álit okkar.

Herra forseti. Ég fer að ljúka þessari umfjöllun og hleypa að áhugasömum þingmönnum sem hafa kynnt sér efni skýrslunnar og vilja taka þátt í umræðum. Ég hef vikið að verkefnum Ríkisendurskoðunar. Ég hef greint frá áliti fjárlaganefndar og einnig vísað til laga um Ríkisendurskoðun frá 1997, nr. 86, og hvet aðila til að kynna sér þau.

Umfang verkefna Ríkisendurskoðunar er gríðarlegt hér innan lands en stofnunin tekur einnig þátt í alþjóðlegum samskiptum á sínu sviði. Hún er aðili að fjölþjóðlegum samtökum um endurskoðun auk þess sem hún hefur mjög gott samband við systurstofnanir í nágrannaríkjum.

Ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, situr nú í átta manna stjórn Evrópusamtaka ríkisendurskoðana og má minna á að 21. stjórnarfundur þeirra var haldinn í Reykjavík í septembermánuði 2006. Stofnunin hefur einnig tekið þátt í nokkrum alþjóðlegum endurskoðunarverkefnum á árinu 2006, m.a. endurskoðun hjá EFTA. Einnig hefur stofnunin um nokkurra ára skeið endurskoðað þróunarverkefni í Afríku sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands stendur að og styrkir. Um störf stofnunarinnar á árinu 2006 nægir að vísa til umræddrar ársskýrslu þar sem nánar er gerð grein fyrir megindráttum í starfseminni.

Vil ég að lokum flytja Ríkisendurskoðun, ríkisendurskoðanda og starfsmönnum, þakkir fyrir vel unnin störf á því ári sem hér hefur verið fjallað um. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við Ríkisendurskoðun hér eftir sem hingað til í fjölbreyttum verkefnum sem við fjöllum um hér innan þingsins, í fjárlaganefnd, í forsætisnefnd og á fleiri stöðum.