135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[14:43]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hnaut um eitt í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar þegar hann var að tala um Ríkisendurskoðun og talaði mikið um það hvað það hefði verið afskaplega óeðlilegt að tiltekinn ráðherra í ríkisstjórn hefði óskað eftir stjórnsýsluúttekt á tiltekinni stofnun. Ef ég man rétt, hæstv. forseti, orðaði hann það þannig að það væru lög og reglur um það að svo ætti að vera. Mig langar að biðja hv. þingmann um að benda mér á það vegna þess að það er þannig varðandi Ríkisendurskoðun að það skiptir ekki nokkru máli hvort það er forsætisnefnd, einstaka þingmenn eða ráðherrar sem óska eftir úttekt, eini munurinn er sá að Ríkisendurskoðun er skylt að verða við óskum komi þær frá forsætisnefnd.

Ég bendi hv. þingmanni á að lesa lög um Ríkisendurskoðun og ég get lánað honum þau hér í sæti sitt, en ég vildi halda þessu til haga í umræðunni.