135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:04]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins í umræðuna um skýrslu Ríkisendurskoðunar og líkt og aðrir þingmenn sem hér hafa talað þakka ég ríkisendurskoðanda og hans fólki fyrir góð störf og upplýsandi og fræðandi skýrslu. Það er reyndar svolítið sérstakt að standa hér í ræðupúlti Alþingis í nóvember og ræða skýrslu sem gefin var út í mars en engu að síður voru kosningar og Alþingi störfum hlaðið í vor og þess vegna erum við að ræða þetta hérna nú. Eins og ég sagði áðan vil ég þakka stofnuninni og starfsfólki hennar fyrir vel unnin störf.

Eitt vakti sérstaka athygli mína í skýrslunni og mér þótti það ánægjulegt, ég ætla að lesa það sem stendur á bls. 5 þar sem haft er eftir ríkisendurskoðanda, með leyfi forseta:

„Á samtals tæplega fjögurra áratuga ferli mínum innan ríkiskerfisins hef ég reynt að ríkisstarfsmenn eru upp til hópa ábyrgt og heiðarlegt fólk.“

Þetta þótti mér afar ánægjulegt að lesa í skýrslu ríkisendurskoðanda og treysti því að þetta sé rétt komandi úr munni þessa ágæta embættismanns.

Það er ýmislegt fróðlegt sem maður rekst á þegar maður skoðar þessa skýrslu og á sömu síðu og ég vitnaði til áðan, síðu 5, þá kemur fram að Ríkisendurskoðun hafi að litlu leyti skipulagt starf sitt til lengri tíma en eins árs. Þetta vekur auðvitað athygli, ekki síst athygli mína komandi úr starfi þar sem menn hafa vanist því að gera langtímaáætlanir t.d. í fjárhagsáætlunargerð, þriggja til fimm ára áætlanir og það er mjög ánægjulegt að sjá að ríkisendurskoðandi stefnir að því að framvegis verði stóru línurnar lagðar í þriggja ára áætlunum þar sem koma fram meginviðfangsefni hvers tíma og þeir þættir sem lögð verður áhersla á til langs tíma. Þetta rímar við þær áherslur sem núverandi ríkisstjórn og þeir flokkar sem að henni standa hafa kynnt varðandi breytingar á fjárlagagerðinni, að hér verði tekin upp í framtíðinni rammafjárlög og hér verði tekin upp í framtíðinni langtímafjárlagagerð. Ég held að með því fáum við markvissari yfirsýn yfir ríkisreksturinn og við setjum okkur markmið sem hægt verður að fylgja eftir. Ég fagna því að ríkisendurskoðandi ætli líka að setja sér þessar þriggja ára áætlanir.

Mig langar til að minnast á eitt atriði, herra forseti, sem líklega er ekki minnst á í þessari skýrslu en er engu að síður mál sem komið hefur verið inn á í umræðunni og ríkisendurskoðandi gerði grein fyrir á síðasta fundi sem hann átti með fjárlaganefnd. Ég vil nota tækifærið og segja það að mér hefur fundist ákaflega upplýsandi fyrir mig sem nýjan þingmann að sitja í fjárlaganefnd og fá fulltrúa frá Ríkisendurskoðun inn á þá fundi. Fyrir okkur sem erum að átta okkur á umfangi fjárlagagerðarinnar og setja okkur í stellingar varðandi störfin sem fram undan eru þá er afar upplýsandi og mjög fróðlegt að fá á einu bretti yfirsýn yfir allt ríkiskerfið og þeir fundir sem við höfum átt með ríkisendurskoðanda og hans fólki hafa gagnast vel.

Það kom nýlega fram í fjárlaganefnd og hófst umræða um oháeffun nokkurra ríkisfyrirtækja sem ég hygg að hv. þm. Jón Bjarnason hafi rætt þegar hann ræddi skýrsluna fyrr í dag og ég er svo sem ekki sammála öllu því sem þingmaðurinn sagði í þeirri umræðu og vil ekki nálgast umfjöllunarefnið með sama hætti og hann gerði. Ég álít hins vegar að þetta sé eitthvað sem við þurfum öll að skoða. Í máli ríkisendurskoðanda kom fram ákveðin skoðun á því að með því að oháeffa ýmsa starfsemi ríkisins, þetta eru 19 hlutafélög og sameignarfélög sem eru færð í svokallaðan E-hluta ríkisreiknings og nýjustu fyrirtækin þar eru t.d. Flugstoðir, þá hafi menn með því hugsanlega misst einhvers konar yfirsýn yfir rekstur þessara stofnana og það hafi á einhvern hátt glatast einhvers konar ríkiskúltúr eins og ég hygg að ríkisendurskoðandi hafi nefnt. Ég hef verið mjög hugsi yfir þessu og þessari þróun, kannski ekki síst vegna þess að meginmarkmið opinbers reksturs er þjónusta við almenning og ekki síður að rekstur ríkisins og opinberra aðila sé gegnsær og að auðvelt sé að hafa eftirlit með því sem þar fer fram.

Ég ætla að leyfa mér að setja fram þá skoðun hér að með þessu fyrirkomulagi glatist á einhvern hátt þessi yfirsýn kerfisins, ríkisins með þessum stofnunum. Í flestum þessum stofnunum eru fulltrúar í stjórn yfirleitt settir inn af ráðherrum. Þingið hefur enga aðkomu að því og þeir aðilar sem eru settir þar inn hafa í sjálfu sér engar skyldur varðandi upplýsingagjöf og annað til þingsins þrátt fyrir að þetta séu fyrst og fremst fyrirtæki í eigu hins opinbera. Ég hef af þessu töluvert miklar áhyggjur og ég held að við eigum að huga að þessu, t.d. vegna þess sem fram kom í endurskoðun ríkisreiknings sem var kynntur nýlega í fjárlaganefnd en þar stendur á bls. 82, með leyfi forseta:

„Endurskoðunarskýrslur hlutafélaga eru eingöngu lagðar fyrir stjórnir þeirra og er Ríkisendurskoðun ekki heimilt að birta efnisleg atriði úr þeim.“

Mér finnst að við eigum að skoða þetta og ég tel að það eigi að vera þannig að fjárlaganefnd hljóti að geta kallað eftir því að fá að sjá þessa skýrslu til þess að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu með því hvernig farið er með opinbert fé. Ég spurði ríkisendurskoðanda út í það hvað það þýddi, hvort það væri þannig að fjárlaganefnd gæti ekki séð skýrslur eða úttektir sem væru gerðar á vegum hans embættis. Hann sagði að hann ætlaði að skoða málið, hann gat ekki alveg svarað því á fundinum hvort svo væri. En bara það svar vakti mig til umhugsunar um það hvernig við eigum að geta haft eftirlit með þessu ef svona erfitt er að kalla eftir þessum upplýsingum og að fá að sjá þetta.

Að öðru leyti er þessi skýrsla auðvitað með hefðbundnum hætti og kannski svo sem ekkert nýtt sem kemur þar fram. Ég vil hrósa Ríkisendurskoðun fyrir að hún hefur á undanförnum árum verið mjög dugleg við að setja allar sínar úttektir og skýrslur á netið í mjög aðgengilegu formi og á aðgengilegan hátt og til að mynda sl. vetur þegar ég stundaði mastersnám í stuttan tíma notfærði ég mér óspart síður Ríkisendurskoðunar varðandi úttektir á alls kyns ríkisrekstri o.s.frv. Það er algerlega til fyrirmyndar að opinber stofnun skuli haga störfum sínum þannig að hægt sé að fá skýrslur nánast sama dag og þær koma út á netinu og kynna sér og mér finnst ástæða til þess, forseti, að þakka fyrir það. Það er allt of oft sem menn eru skammaðir úr þessum stóli fyrir eitthvað sem þeir gera illa eða gera ekki en kannski allt of sjaldan sem mönnum er hrósað. Ég vil því nota þetta tækifæri til þess að hrósa stofnuninni fyrir þessi vinnubrögð og þá skýrslu sem hér er til umræðu og þakka fyrir hana.