135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:16]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki minnst einu orði á Matís í ræðu minni en ég talaði hins vegar um Flugstoðir. Varðandi spurningu hv. þingmanns finnst mér í sjálfu sér ekkert að því að menn skoði mismunandi rekstrarform opinbers rekstrar.

Ég bendi hins vegar á að ég tel að skoða verði hvernig til hefur tekist í þessum efnum, hvort Alþingi og ríkið glati með núverandi fyrirkomulagi ákveðinni yfirsýn og möguleikum til að hafa eftirlit með starfseminni. Þetta er jú starfsemi sem er 100% í eigu ríkisins, í sumum tilfellum aðeins minna en það.

Mér finnst rangt að þingmenn og kjörnir fulltrúar geti ekki kallað eftir upplýsingum frá fyrirtækjunum, upplýsingum sem alveg er hægt að fara með sem trúnaðarmál. Það er fyrst og fremst það sem ég meina.

Rekstrarformið sem slíkt er ekki aðalatriðið. Ríkisrekstur er ekki heilagur í mínum augum. Ef hv. þingmaður kýs að kalla það einkavæðingu þá stóð ég að því að einkavæða ýmiss konar starfsemi á vettvangi Reykjavíkurborgar ásamt félögum hans í borgarstjórnarflokki Reykjavíkurlistans. Aðalatriðið er að kjörnir fulltrúar geti haft eftirlit með því hvernig er með fjármuni farið, formið sjálft skiptir ekki öllu máli í því sambandi.