135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:18]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst mjög góð áhersla hjá hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að vitna í ummæli ríkisendurskoðanda um ágæti og trúmennsku opinberra starfsmanna.

Við höfum mátt heyra, ekki síst í tíð síðustu ríkisstjórnar, að opinberir starfsmenn og opinber rekstur væru eitthvað sem stæði almannaþjónustu fyrir þrifum, þess vegna þyrfti að einkavæða sem flest.

Ég er mjög hlynntur einstaklingsrekstri og fann að því að Íslandspóstur væri farinn að reka bókabúð við hliðina á grónum og innfæddum kaupmanni í litlu samfélagi úti á landi. Ég dreg í efa að það sé rétt og er á móti því. Ef engin slík þjónusta væri þar fyrir hendi þá væri það annað mál.

Ég bind vonir við orð hv. þingmanns í þá veruna að hin blinda einkavæðingartrú sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur staðið fyrir í almannaþjónustunni á undanförnum árum hefði lokast inni. Mun þingmaðurinn beita sér fyrir breytingum í þeim efnum fyrst Samfylkingin er komin í ríkisstjórn og við reynum að vinda ofan af þessari einkavæðingarvitleysu sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa keyrt fram á síðustu árum? Við bíðum svo sannarlega eftir því (Forseti hringir.) og mér finnast orð hv. þingmanns lofa góðu í þeim efnum.