135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:23]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir með öðrum þingmönnum varðandi ágæti skýrslu ríkisendurskoðanda. Hv. þingmaður Gunnar Svavarsson fór vel yfir skýrsluna og rakti efni hennar með ágætum. Mér finnst dálítið sérstakt að þingmenn lýsi því yfir að þeir taki sérstaklega undir og komi jafnvel á óvart það sem ríkisendurskoðandi segir í formála að árskýrslunni, með leyfi forseta:

„Á samtals tæplega fjögurra áratuga ferli mínum innan ríkiskerfisins hef ég reynt að ríkisstarfsmenn eru upp til hópa ábyrgt og heiðarlegt fólk. Undantekningar eru sem betur fer fáar og sjaldgæft að starfsmenn falli í þá freistni að misfara með fjármuni sem þeim er treyst fyrir.“

Ég verð að segja að þetta kemur mér ekki á óvart. Þetta vissi ég og hef sannreynt það enda unnið talsvert hjá hinu opinbera. Ég hef líka unnið talsvert úti í einkageiranum, sjálfur rekið fyrirtæki. Það nákvæmlega sama á við hjá fólki í einkageiranum. Upp til hópa eru Íslendingar heiðarlegt fólk og fara vel með fjármuni sem þeim er treyst fyrir. Það kemur rekstrarformum ekkert við. Fólk verður ekkert verra við að skipta frá ríkisfyrirtæki til einkafyrirtækis eða öfugt.

Eins og fram kemur í skýrslunni er Ríkisendurskoðun óháð stofnun sem starfar í umboði Alþingis og er mikilvæg sem slík. Hún er í rauninni stór þáttur í því að skilja á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafans. Ég hef spáð mikið í hvort Ríkisendurskoðun ætti ekki að láta endurskoðunina í hendur endurskoðunarskrifstofa sem reyndar eru einkareknar. Þetta eru löggilt fyrirtæki sem hafa uppáskrifað að þeim er treyst til slíkra verka. Embættið myndi síðan að hafa eftirlit með endurskoðunarskrifstofunum, að þær vinni verk sitt vel.

Ég tel að minnka eigi báknið og kaupa þjónustu á markaði í eins miklum mæli og mögulegt er. Í öðru plaggi sem ríkisendurskoðandi gaf út, endurskoðun ríkisreiknings 2006, var áhugaverð niðurstaða úttektar sem embættið gerði á kostnaði um hverja tímaeiningu, annars vegar hjá embættinu og hins vegar á aðkeyptri endurskoðunarþjónustu. Í þeim samanburði kemur fram að hver klukkustund kostar um það bil sex þús. kr. hjá embættinu en yfir átta þús. kr. í aðkeyptri vinnu.

Miðað við þau vinnubrögð sem ég hef séð hjá ríkisendurskoðanda er mjög erfitt að efast um þessar tölur þótt við stöndum alltaf frammi fyrir því hver eigi að hafa eftirlit með eftirlitinu. Að sjálfsögðu er Ríkisendurskoðun endurskoðuð og því tel ég þessar tölur góðar og gildar. Það er því svolítið erfitt að halda ræðu um að kaupa þjónustuna annars staðar frá ef svo miklu munar. Auðvitað má nálgast málið með ýmsum hætti og fara yfir það fram og til baka.

Að því gefnu að tölurnar séu réttar hef ég verið að spá í hvort ekki eigi að snúa þessu við. Ef til vill ætti að fá endurskoðunarskrifstofu til að gera innri endurskoðun eða áreiðanleikakannanir á einstaka stofnunum í ljósi þess að Ríkisendurskoðun gerir endurskoðunina. Þá er kominn annar aðili í verkefnið en endurskoðunin sjálf en það þekkist víða. Opinberir aðilar hafa gert það, til að mynda Reykjavíkurborg. Með því á ég ekki við að fara eigi fram innri endurskoðun í hverri einustu stofnun eða fyrirtæki ríkisins á hverju ári heldur að gerðar séu stikkprufur. Ég held að það væri gott bæði fyrir embættið og stofnanirnar.

Þar með er búið að snúa á hvolf þeirri hugsun sem ég var með í upphafi. Hvort tveggja snýr þó í raun að því að efla eftirlitið og skilja á milli endurskoðunarfyrirtækjanna annars vegar og gera áreiðanleikakannanir hins vegar.

Ég velti þeirri hugmynd upp þó að mér hefði þótt skynsamlegast að ríkisendurskoðandi keypti þjónustuna af endurskoðunarskrifstofum og síðan skoðaði embættið verk endurskoðunarskrifstofanna.

Ég tek þó fram að ríkisendurskoðandi kaupir þjónustu á markaði. Hann gerir sér grein fyrir að á sumum sviðum hafa fyrirtækin meiri sérþekkingu en ríkisendurskoðun og þá leitar hún eftir þjónustu þeirra sem eru fremstir á hverju sviði.

Mig langar koma inn í umræðu sem snýr að einkavæðingu. Hv. þingmanni Jóni Bjarnasyni er tamt að tala um einkavæðingu þegar breytt er um rekstrarform á ríkisfyrirtækjum. Þótt ég sé algjörlega ósammála því að verið sé að einkavæða þegar rekstrarformi er breytt er það rétt hjá Jóni að spyrja þarf um tilgang þess. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ekki að ohf-væða eigi stofnanir ef eðli þeirra breytist ekki neitt. Hver er tilgangurinn með því ef stofnun verður áfram stofnun en fær ohf. fyrir aftan sig? Þá komum við að eftirlitinu sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir talaði um áðan. Í rauninni er þá búið að kippa eftirlitshlutverki þingsins og jafnvel Ríkisendurskoðunar frá löggjafanum. Búið er að aftengja fjárlaganefnd ef Ríkisendurskoðun getur ekki látið okkur í té upplýsingar sem við hefðum fengið ef um stofnun hefði verið að ræða.

Ég er alveg sammála hv. þm. Jóni Bjarnasyni um að það sé skrýtið að ríkisfyrirtæki fari í samkeppni við einkaaðila úti á landi. Hann talar um að Pósturinn sé í samkeppni við rótgróna bókabúð úti á landi. Ég verð að segja að mér finnst það afskaplega sérstakt og tek undir með honum að auðvitað eigi ríkið ekki að standa í slíkri samkeppni. Annaðhvort eigum við að losa hömlur af einkarétti Póstsins og selja hann eða að Pósturinn getur verið stofnun og starfað í því umhverfi.

Það er rangt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að tala um einkavæðingu þótt breytt sé um rekstrarform. Bent hefur verið á að flokkur vinstri grænna hefur oft tekið þátt í breytingum á rekstrarformi á stofnunum hjá Reykjavíkurborg. Félagsbústöðum og fleiri stofnunum var breytt í hlutafélag og vinstri grænir tóku þátt í því væntanlega vegna þess að þeir töldu að það rekstrarform væri betra.

Herra forseti. Ég undirstrika að það er stór munur á því að einkavæða eða að breyta í hlutafélag. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að þegar verið er að hlutafélagsvæða eigi að gera það í þeim tilvikum þar sem stofnanir eða fyrirtæki eru að fara í samkeppni á markaði. Að öðru leyti tel ég að við eigum að halda okkur við stofnanaformið. Einstaka stofnanir hafa verið að hf-væða hluta af starfsemi sinni. Það finnst mér líka afskaplega sérstakt. Það var gert hjá Flugmálastjórn og ég man eftir að Vegagerðin fékk einnig heimildir til slíks. Ég átta mig ekki alveg á hvers vegna hluti stofnana er hf-væddur. Annaðhvort fer þjónusta út úr stofnuninni til einkaaðila eða hún er í höndum stofnunarinnar sjálfrar. Ég læt þessu lokið og undirstrika að ég er mjög ánægður með skýrsluna sem við höfum fengið í hendur.