135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:38]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmaður meini þá með einkavæðingu. Mér hefur fundist að talsmenn einkavæðingarinnar hafi alltaf skammast sín fyrir hana og ætlað að flýja frá henni. Ég man eftir því að fyrst þegar ég kom inn á þing þá vorum við alveg ófeimnir að tala um að hlutafélagavæðing Landssímans væri einkavæðing Landssímans. Þeir voru alveg ófeimnir við það og þá kom fram í greinargerð með breytingu á lögum um að breyta því í hlutafélag að ástæðan væri sú að rjúfa þyrfti sambandið hjá opinberum starfsmönnum því þeir væru svo svifaseinir og það mætti ekki reka þá og allt þetta. Þetta var tíundað sem rök fyrir því að einkavæða.

Ég er hlynntur einstaklingsrekstrinum og þess vegna minntist ég einmitt á bókabúðina í Stykkishólmi. Ég hefði ekki haft sömu samúð með því ef Baugur hefði þar verið að reka bókabúð inni í matvöruverslun. Þá hefði ég ekki haft sömu samúð. Ég stend vörð um einstaklinginn, einstaklingsframtakið, kaupmanninn sem vinnur á sínum forsendum en ekki þessar stóru einokunarkeðjur. Þar skilur á milli mín og okkar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins sem hefur kastað fyrir róða hagsmunum einstaklingsins í þágu einkavæðingarinnar, einkavæðingarfjármagnsins sem öllu skal ráða.

Ég velti því fyrir mér nú hvort við horfum fram á óbreytta tíma, einkavæðingartíma með samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eins og var með Sjálfstæðisflokks og Framsókn. Mér sýnist þegar allt kemur til alls á málflutningi þingmanna Samfylkingarinnar að í rauninni verði (Forseti hringir.) engin breyting á, að þetta verði óbreytt sjálfstæðis-, framsóknar-, (Forseti hringir.) samfylkingarríkisstjórn.