135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:41]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að fagna því sérstaklega að hér skuli hrjóta af vörum hv. þm. Jóns Bjarnasonar: „Ég stend vörð um einstaklinginn og einstaklingsframtakið.“ Þetta er alveg nýtt fyrir mér. En ég fagna þessu. Ég fagna þessu. Ég verð að segja það alveg eins og er. Munurinn á okkur er að hann vill skilja á milli hverjir eiga í hlut og þá segist hann ekki hafa sömu samúð með stórum keðjum eins og Baugi eða Hagkaupum (Gripið fram í.) þannig að hann vill að einstaklingarnir og einstaklingsframtakið njóti mismunandi réttar. Þó verð ég að taka undir það með þau stórveldi að ég tel að samkeppni á matvörumarkaði sé ekki nægileg og að þar séu þessar keðjur orðnar allt of stórar og ráði allt of miklu.

Verðandi einkavæðingu á Símanum þá held ég að meginástæðan hafi ekki verið sú að starfsfólkið eða ríkisstarfsmennirnir hafi verið svifaseinir og ekki heldur tel ég að ástæðan fyrir því að honum var breytt í hlutafélag hafi verið að ekki mætti reka þessa starfsmenn. Ég segi við hv. þingmann að þetta er algerlega út í bláinn. Hins vegar hafði rekstrarformið sem slíkt ákveðin hamlandi áhrif á fyrirtækið og af því að við erum að tala um þetta hérna hvað eigi að vera hf. og hvað eigi ekki að vera hf. þá held ég að Síminn sé akkúrat dæmigert fyrirtæki sem er í samkeppni á almennum markaði og á að einkavæða og að hann sé eitt besta dæmið um hvað eigi að einkavæða. (JBjarn: Já, en Flugstoðir ...?) Ég hef heldur ekki tjáð mig neitt um (JBjarn: Nei!) Flugstoðir, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)