135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:43]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða í dag þó að upp hafi skotið nokkrum gömlum draugum sem jafnan birtast í umræðu af þessum toga. Ég var að hugsa til þess þegar ég heyrði ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar að jólin eru að koma og allir vilja eiga sína grýlu og það er einkavæðingargrýlan sem var komin á flug í þessari umræðu þó það sé kannski ekki beint umræðuefnið hér, þ.e. skýrslur annars vegar fyrr í dag skýrslu umboðsmanns Alþingis og nú skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ég held að umræðan sem fram fer í dag sé afar mikilvæg og mikilvægt að Alþingi taki þessar skýrslur á dagskrá og fari yfir efni þeirra og fjalli um það. Reyndar er það þannig, að minnsta kosti er það mitt mat, að Alþingi þarf að veita báðum þessum stofnunum, umboðsmanni annars vegar og Ríkisendurskoðun hins vegar, meiri styrk og betra bakland en verið hefur undanfarin missiri. Þessar stofnanir heyra, þó óháðar séu, undir Alþingi og eiga að veita stjórnvöldum aðhald. Það er einmitt hlutverk Alþingis og þetta eru tæki og tól sem má kannski orða á þann veg að séu einhvers konar framhald af Alþingi og eiga að veita stjórnvöldum aðhald í sínum störfum. Það er einfaldlega þannig að við munum aldrei koma upp svo góðu kerfi að við þurfum ekki að veita því aðhald og það eiga þessar stofnanir að gera. Því er afar mikilvægt að þær finni styrk og bakland í löggjafarsamkundunni. Það þurfa þær að finna og það eiga að vera skilaboð okkar út úr þessari umræðu inn í þessar stofnanir að þær hafi þann stuðning til að takast á við þau verkefni sem við höfum falið þeim. Ég fagna því þessari skýrslu, fagna þessari umræðu og þeirri þróun sem átt hefur sér stað undanfarin missiri.

Mig langar að segja það þar sem ég hef verið í þessari umræðu um nokkurt skeið að mér þykir — af því að við ræðum hér Ríkisendurskoðun — að Ríkisendurskoðun hafi, ef ég má orða það þannig, mannast talsvert á undanförnum árum og sýnt aukið sjálfstæði frá því sem áður var. Ég fagna því alveg sérstaklega þar sem Ríkisendurskoðun eins og umboðsmaður Alþingis starfar í því umhverfi sem við öll þekkjum að framkvæmdarvaldið hefur verið geysilega sterkt. Löggjafarsamkundan hefur ekki haft þann sama styrk og störf þeirra hafa að sumu leyti tekið mið af þessu. Ég vonast til þess að það sem við höfum séð bæði frá Ríkisendurskoðun og eins frá umboðsmanni beri þess glöggt merki að við munum sjá breyttar áherslur á næstu árum þar sem Alþingi mun standa enn betur við bakið á þessum stofnunum en verið hefur.

Það er einnig ljóst að lykilhugtökin í starfi Ríkisendurskoðunar eru trúverðugleiki, óhæði, trúnaður og fagmennska og það er þannig eftirlit sem við viljum sjá með stjórnsýslunni og þannig viljum við hafa það og þessar stofnanir munu aldrei geta veitt þetta eftirlit nema þær finni stuðning og styrk og bakland í löggjafarsamkundunni. Það eru þau skilaboð sem eiga að fara út héðan.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þá umræðu að bæta sem hér hefur farið fram nema hvað mér hefur þótt hún góð. Hún hefur tekið þennan dag sem sýnir að þingmenn hafa mikinn áhuga á störfum þessara stofnana. Verkefni þeirra eru afar mikilvæg og ég vil sérstaklega í ljósi þess að sá er hér stendur hefur nokkra hildi háð við Ríkisendurskoðun og við höfum ekki alltaf verið samstiga og ýmis orð hafa fallið og stafir á prent sem hafa dregið þann ágreining fram, en ég vil segja það sérstaklega að ég vil lýsa því að ég er ánægður með þá þróun sem hefur átt sér stað í Ríkisendurskoðun. Ég er ánægður með það sjálfstæði sem ég hef smám saman séð aukast hjá stofnuninni. Kannski er staðreyndin sú að við þurfum að tryggja að Ríkisendurskoðun geti haldið áfram þessari vinnu sinni og mikilvægt er að Ríkisendurskoðun geti veitt ráðuneytunum fullt aðhald, að Ríkisendurskoðun geti einnig farið í úttekt á ráðuneytunum því það er þannig að ef aðhaldið á að virka eins og við viljum sjá það gera þá er ekki einvörðungu hægt að fara í stofnanirnar heldur verður að fara líka í ráðuneytin og vonandi er það sú þróun sem við munum sjá á næstu árum.