135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:48]
Hlusta

Frsm. fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hv. þingmönnum fyrir að taka eins virkan þátt og raun ber vitni í umræðu um ársskýrslu Ríkisendurskoðunar. Hér hefur verið farið yfir víðan völl, eins og venja er til í þinginu, og fjallað um hluti sem tengjast starfsemi Ríkisendurskoðunar á óbeinan hátt.

Ég ítreka að álit fjárlaganefndar var samhljóða og ég gerði grein fyrir því í upphafi ræðu minnar fyrr í dag. Einnig vék ég að ýmsum þáttum sem fjallað er um í lögum um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, auk þess sem hér hefur verið vikið að fjölmörgum atriðum sem lúta að starfsemi Ríkisendurskoðunar, hvort heldur það er fjárhagsendurskoðun eða stjórnsýsluúttektir eða önnur starfsemi.

Ég ítreka þakkir til handa Ríkisendurskoðun og starfsmanna hennar fyrir vel unnin störf á því ári sem fjallað var um í ársskýrslunni og bið ríkisendurskoðanda, Sigurð Þórðarson, sem hefur hlýtt á þessa umræðu í dag, að flytja stofnuninni kveðjur okkar.