135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

Urriðafossvirkjun.

[15:52]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi bárust þær nöturlegu fréttir að hreppsnefnd Flóahrepps hefði samþykkt að setja Urriðafossvirkjun á aðalskipulag. Hreppsnefnd hafði áður hafnað virkjun en lætur nú undan linnulausum þrýstingi Landsvirkjunar þannig að hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar hafa bakkað með sitt nei og sína sannfæringu, þau þora ekki annað undan ægivaldinu sem við blasir. Nú spyr ég: Hvað ætla hinir lýðræðislegu fulltrúar Alþingis að gera? Hverju þora þeir í þessum efnum? Ég spyr alveg sérstaklega: Hvernig hefur Samfylkingin beitt sér í þessu máli innan ríkisstjórnarinnar? Því miður er svarið frekar einfalt, hún hefur ekkert beitt sér í málinu. Hún firrir sig ábyrgð og bendir á alla aðra út og suður, aðra en sjálfa sig.

Ríkisstjórnin öll ber ábyrgð á þessu máli og þar hrópar hæst hin skerandi þögn hæstv. umhverfisráðherra, hæstv. iðnaðarráðherra og síðast en ekki síst hæstv utanríkisráðherra, formanns Samfylkingarinnar, þess sama formanns sem fyrir ekki svo löngu síðan sagði berum orðum að það yrði að frelsa sveitarfélögin undan þeirri byrði sem að þeim steðjaði vegna ágangs orkufyrirtækja og annarra og þessu máli var komið inn á Alþingi. Sá sami formaður þegir nú þunnu hljóði og holur hljómur heyrist hæst innan veggja Alþingis.

Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað ætlast Samfylkingin fyrir í þessum efnum? Hverju ætlar hún að þora? Hvernig ætlar hún að standa við fyrirheitin fögru?