135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

Urriðafossvirkjun.

[15:58]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Hv. þingmaður hefur ítrekað fjallað á þessum vettvangi og öðrum um virkjanir og stóriðju og ég held að það sé óhætt að segja þeim sem hafa haft áhyggjur af framþróun þess málaflokks að þar hafi margt jákvætt verið að gerast á síðustu mánuðum og missirum. Ég minni á þá atkvæðagreiðslu sem Samfylkingin stóð fyrir í Hafnarfirði og gerði það að verkum að ekki varð af stórfelldum uppbyggingaráformum þar í áliðnaði. Ég minni á þær yfirlýsingar sem komnar eru fram af hálfu Landsvirkjunar um að hún muni ekki selja orku til nýrra álvera á suðvesturhorninu og þau áhrif sem það hefur á stórverkefni sem fyrirhuguð voru á því sviði. Ég bendi á ýmislegt sem hefur verið að koma upp í virkjunarmálum sem gerir það að verkum að verkefni sem virtust nálægt í tíma eru komin nokkuð fram í tímann og sá mikli þrýstingur um stórfellda uppbyggingu álvera sem var fyrir ekki mjög löngu síðan hefur mjög minnkað og er full ástæða til að lýsa ánægju með það. Ég tek undir með oddvita okkar í Suðurkjördæmi að þetta gefur auðvitað ákveðið tækifæri til að fara yfir þau virkjanaáform sem hafa verið í neðri Þjórsá og hvort mætti endurskoða þau á einhvern hátt sem betri sátt gæti skapast um.

Ég held hins vegar að í dag snúi aðalspurningarnar í virkjana- og stóriðjumálunum ekki að því sveitarfélagi sem er í Flóanum heldur því sveitarfélagi sem við erum stödd í, Reykjavík, og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur nú forustu fyrir í stefnumörkun í orkumálum í samvinnu við okkur í Samfylkingunni. Þar hljóta auðvitað að vera uppi þær spurningar hvort ráðist verði í virkjanir í Bitru og Hverahlíð og orkusölu til nýrra álvera á suðvesturhorninu. Það væri forvitnilegt að heyra sjónarmið málshefjanda og forustumanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar meðal annarra, (Forseti hringir.) til þeirra stóru spurninga sem nú hljóta að vera uppi.