135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:34]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður greindi ekki orðaskil í ræðu minni. Hins vegar fór hv. þingmaður rétt með það sem hún sagði í andsvari, varðandi prinsippið, þ.e. að skilja á milli heilbrigðisþjónustu annars vegar og þess sem við getum kallað félagslega þjónustu eða búsetuúrræði.

Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir þekkir eru oft og tíðum ekki mjög skýrar línur í því og þess vegna hafa menn þetta opið og menn þurfa að vinna út frá þeim forsendum. Hv. þingmaður nefndi nokkur dæmi um atriði sem þyrfti að fara sérstaklega yfir. Ég tel að í langflestum tilvikum ætti þetta að vera mjög skýrt. En grunnatriðið er að heilbrigðisþjónustan er hjá heilbrigðisráðuneytinu en það sem við getum kallað félagslega þjónustu og búsetuúrræði fer yfir í félagsmálaráðuneytið.

Ég fór yfir það, virðulegi forseti, vegna þess að hér var minnst á hjúkrunarheimilin, að þetta á við þar. Heilbrigðisþjónustan verður hjá heilbrigðisráðuneytinu á meðan búsetuþátturinn verður hjá félagsmálaráðuneytinu. Þetta á þó ekki við stofnanir, eins og hv. þingmaður minntist á, úti á landi þar sem hjúkrunarrými eru inni á sjúkrastofnunum og svo er reyndar á fleiri stöðum en úti á landi. Það heyrir undir heilbrigðisráðuneytið. En þetta er útfærsla sem menn munu vinna út frá í framhaldi af þessari lagasetningu verði hún að lögum.