135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að þetta er allt að koma hjá okkur. Það er markmið í sjálfu sér og ég skal reyna að tala skýrt þannig að það fari ekkert á milli mála.

Útgangspunkturinn er þessi. Heilbrigðisþjónustan verður hjá heilbrigðisráðuneytinu. (SF: Hvaða almenna þjónusta …?) Sé um aðra þjónustu að ræða sem heyrir ekki undir heilbrigðisþjónustu þá er hugmyndin sú að hún verði hjá félagsmálaráðuneytinu. (Gripið fram í.) Það er nokkuð sem menn þurfa að fara yfir. Eins og menn vita er það margs konar þjónusta sem er veitt. En þetta er útgangspunkturinn. Í frumvarpinu er þetta orðað með þessum hætti vegna þess að þetta er línan. Annars vegar á heilbrigðisþjónustan að vera í heilbrigðisráðuneytinu og sé um aðra almenna þjónustu að ræða, félagslega þjónustu, (Gripið fram í.) þá færist hún yfir í félagsmálaráðuneytið.

Það er útgangspunkturinn í þessari vinnu eins og kemur fram bæði í frumvarpinu og framsöguræðu minni, sem hv. þingmaður skildi ekki alveg.