135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:43]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir nákvæmlega engu máli þótt þetta sé í stjórnarsáttmálanum. Það eru ekki rök og réttlæting fyrir því að taka algjörlega óskylt efnisatriði inn í þetta verkaskiptingarfrumvarp sem að öllu öðru leyti fjallar um tilfærslu tryggingamála yfir til félagsmálaráðuneytisins. Þetta er algjörlega aðskilinn efnisþáttur og þótt eitthvað standi um hann í stjórnarsáttmála þá eru það engin rök fyrir því að láta hann fá far með þessu frumvarpi, sem að öðru leyti er verkaskiptafrumvarp.

Þegar málið er jafnvanbúið og raun ber vitni og taka þarf sérstaklega fram í skýringum við greinina að koma muni frumvarp um þetta mál sem slíkt inn á þingið í vor, þá segir það auðvitað allt sem segja þarf. En mikið liggur á. Það segi ég bara. Varðandi það að þetta sé óumdeildur norrænn kratismi þá set ég mikla fyrirvara við það.

Það er að vísu alveg rétt að kratar í Svíþjóð urðu um tíma fullfrjálshyggjumengaðir og fóru út í tilraunastarfsemi í heilbrigðismálum sem hefur verið mjög umdeild þar í landi. Undir hið síðasta voru kratar meira og minna horfnir frá því aftur og hafa jafnvel bakkað út úr hlutum sem Svíar reyndu á 10. áratugnum í þessum efnum með mjög misjöfnum árangri, eins og má t.d. lesa um í allítarlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um þetta mál frá því fyrir nokkrum árum.

Ég dreg ekki í land með það að hér er ástæða til að hafa varann á. Við vitum auðvitað hvert hugur Sjálfstæðisflokksins stefnir í þessum efnum. Það verður fróðlegt að heyra að hvaða marki Samfylkingin er búin að selja sig undir þessa aðferðarfræði. Brautin er rudd með aðskilnaðaraðferðarfræði og hugsun og þá sé hvort sem er farið að aðskilja og verðleggja einstaka þætti þjónustunnar. Í næstu umferð munu menn segja: Ja, þá skiptir ekki svo miklu máli af hverjum við kaupum hana.

Við þekkjum vel þessa aðferðarfræði, þegar ríkið fer að borga sér leigu og svo segja menn eftir svolitla stund. Já, það skiptir ekki öllu máli hverjum við borgum leiguna, hvort það er opinbert húsnæði eða einkaaðili. Þannig að hér skal að upphafinu hyggja.