135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:58]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir er hluti af samkomulagi stjórnarflokkanna um breytta verkaskiptingu á milli ráðuneyta. Hér er um að ræða breytta verkaskiptingu milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis þar sem lífeyristryggingar og málefni aldraðra, önnur en þau sem varða heilbrigðisþjónustu, eru færð frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis.

Þessi flutningur felur í sér þó nokkrar skipulagsbreytingar, m.a. þær að verkefnum Tryggingastofnunar ríkisins er skipt upp á milli ráðuneyta þar sem lífeyristryggingar færast til félagsmálaráðuneytis en slysa- og sjúkratryggingar verða áfram á forræði heilbrigðisráðherra.

Eitt af markmiðum frumvarpsins er að aðgreina kaup á heilbrigðisþjónustu og veitingu á heilbrigðisþjónustu. Í frumvarpinu er þannig gert ráð fyrir að sett verði á laggirnar nokkurs konar innkaupastofnun heilbrigðisþjónustu sem sér um kaup á heilbrigðisþjónustu í umboði heilbrigðisráðherra. Mig langar að fjalla í nokkrum orðum um þessar breytingar.

Varðandi flutning málefna aldraðra til félagsmálaráðuneytisins er það að segja að um árabil hafa forsvarsmenn aldraðra bent á að öldrun er ekki sjúkdómur og því sé ekki rétt að láta málefni þeirra falla undir heilbrigðisráðuneyti. Þeir hafa nokkuð til síns máls enda sýna tölur að aðeins 7% þeirra sem eru 67 ára og eldri þurfa á varanlegri þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda inni á hjúkrunarheimilum eða í hjúkrunarrýmum heilbrigðisstofnana. Það segir okkur að 93% aldraðra halda eigin heimili en hluti þeirra nýtur stuðnings heimahjúkrunar og/eða heimilishjálpar. Langstærstur hluti eldri borgara er því nokkuð frískur og því ekki ástæða til að málefni þeirra falli undir heilbrigðisráðuneytið.

Flutningur á málefnum aldraðra til félagsmálaráðuneytis felur í sér að stefnumótun varðandi félagsleg málefni og búsetuúrræði aldraðra sem eru utan hjúkrunarheimila og fjármögnun þeirra er í höndum félagsmálaráðherra. Á hinn bóginn verður heilbrigðisþjónusta við aldraða hvort heldur á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsum áfram á forræði heilbrigðisráðherra enda ekki rökrétt að heilbrigðisþjónusta við aldraða lúti einhverjum öðrum reglum en heilbrigðisþjónusta við aðra þegna landsins í öðrum aldurshópum.

Ég fagna þessum breytingum sem breyta nálgun á málefnum aldraðra og vænti þess að aukinn þungi verði settur í stuðning við eldra fólk til að vera eins lengi í eigin umhverfi og nokkur kostur er, þ.e. heima hjá sér. Auk þess eru uppi hugmyndir um aukna valkosti eldra fólks á búsetu sem mun styðja þessar hugmyndir.

Í öðru lagi felur frumvarpið í sér flutning lífeyristrygginga til félagsmálaráðuneytis. Í sjálfu sér er ekki mikið um það að segja annað en að með því færist ábyrgð á elli- og örorkulífeyri yfir til félagsmálaráðuneytis. Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og hið besta mál. Þessi breyting gefur jafnframt möguleika á að einfalda lífeyristryggingakerfið og skoða samspil þess við lífeyrissjóðina, skatta og atvinnutekjur sem er mikið og vandasamt verk en jafnframt mjög þarft og mikilvægt. Vinna við verkefnið mun þegar vera hafin innan félagsmálaráðuneytisins.

Í þriðja lagi vil ég hafa nokkur orð um aðgreiningu á kaupum og sölu á heilbrigðisþjónustu sem er einn merkilegasti þátturinn í þessu frumvarpi. Það felur í sér nýja nálgun og nýja hugsun í fjármögnun heilbrigðisþjónustu og samskipti ríkisins sem kaupanda þjónustunnar annars vegar og hins vegar þeirra sem veita þjónustuna. Það getur jafnt verið ríkisfyrirtæki, sjálfseignarstofnanir, félagasamtök eða einkaaðilar.

Í rauninni má segja að kaup Tryggingastofnunar ríkisins á heilbrigðisþjónustu með samning við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn sem hefur átt sér stað um árabil sé ákveðinn vísir að þessu kerfi. Nú er hins vegar gengið skrefinu lengra og gert ráð fyrir að sett verði á laggirnar ríkisstofnun sem sjái um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir almenning í umboði heilbrigðisráðherra.

Í fyrradag var ég á ráðstefnu sem skipulögð var af Landspítalanum um svokallað DRG-kerfi sem grundvöll fjármögnunar í heilbrigðisþjónustu. Unnið hefur verið að verkefninu um nokkurra ára skeið og hefur spítalinn notað það sem stjórntæki til hagræðingar og gæðastýringar. Má segja að sú vinna sem fram hefur farið á Landspítala á undanförnum árum leiði til þess að möguleiki er á að fara í nýtt fjármögnunarkerfi fyrr en ella. Hið svokallaða DRG-kerfi, sem stendur fyrir Diagnostic Related Groups, er kerfi þar sem greiðslur eru byggðar á kostnaðargreiningu sjúkdómstilfella sem er lagt til grundvallar greiðslu. DRG-kerfið er eitt af mörgum kostnaðargreiningarkerfum sem til eru en það er einna útbreiddast og notað mjög víða í löndum í kringum okkur, m.a. á Norðurlöndum sem gerir samanburðarkostnað auðveldari fyrir okkur.

DRG-kerfið byggir á útreiknuðum meðaltölum um kostnað við tiltekin sjúkdómstilfelli. Sýnt hefur verið fram á að þau hafa leitt til aukinnar hagkvæmni í rekstri stofnana, bættrar nýtingar fjármagns og aukinna gæða þjónustu. Ýmsir annmarkar hafa einnig verið nefndir sem eru vel þekktir og þarf ný innkaupastofnun að vera vel á verði varðandi þá þætti. Annað kostnaðargreiningarkerfi er einnig vel þekkt hér á landi en það er hið svokallaða RAI-kerfi sem notað er til grundvallar greiðslu til öldrunarstofnana á Íslandi.

Fjármögnun heilbrigðiskerfisins gegnum föst fjárlög hefur verið gagnrýnd í gegnum tíðina þar sem hún þykir úrelt. Ég man t.d. eftir skýrslu sem ég las fyrir nokkrum árum um fjármögnun í heilbrigðisþjónustu. Þar var sagt að Ísland væri eina vestræna ríkið sem eingöngu byggði á föstum fjárlögum við fjármögnun á heilbrigðisþjónustu. Síðan var Albanía nefnd í sömu andrá og var það ekki sérlega skemmtileg samlíking, með fullri virðingu fyrir því ríki þó.

Nú hefur verið tekin ákvörðun um breytta fjármögnun sem byggir m.a. á kostnaðargreiningu. Margar þjóðir hafa á undanförnum árum kosið að fara þá leið sem hér er lögð til, það er að aðgreina kaupendur og seljendur og tengja þær umbótum í heilbrigðisþjónustu. Slíkt skipulag hefur í mörgum tilvikum reynst áhrifarík leið til að koma til móts við heilbrigðisþarfir fólks með markvissari forgangsröðun og aukinni skilvirkni í þjónustu.

Um það hefur verið rætt að kjarni umbóta af þessum toga á skipulagi almannaþjónustu sé að setja þjónustu við neytandann í öndvegi. Ný nálgun getur, ef vel er á málum haldið, leitt til að samskipti sjúklinga og þeirra sem veita þjónustuna breytast. Sjúklingurinn verði miðpunktur þjónustunnar og hann fær fleiri tæki í hendurnar til að kalla á aukin gæði þjónustu.

Í World Health Report árið 2000, sem helguð er umfjöllun um frammistöðu heilbrigðiskerfa heimsins og hvernig bæta megi gæði þeirra, er sérstaklega lögð áhersla á kerfisbundin kaup á heilbrigðisþjónustu til að bæta virkni þeirra og árangur. Í skýrslunni er lagt til að þjóðlönd breyti áherslum sínum í kaupum á heilbrigðisþjónustu frá fastri fjármögnun eða greiðslu á framlögðum reikningum í þá veru að stunda markviss kaup á tiltekinni skilgreindri þjónustu. Þar er nákvæmlega skilgreint hvað kaupa skal og af hverju. Með þessum breytingum sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að gera er þannig farið að bestu ráðum, byggt á bestu útfærslu í alþjóðasamanburði á virkni heilbrigðiskerfa.

Það er ástæða til að taka fram að breytingarnar draga ekki úr ábyrgð stjórnvalda á að standa undir fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar né að eftirlit með framkvæmd hennar verði skert. Þvert á móti hafa þessar aðferðir leitt til þess að fyrir liggur nákvæmari skilgreining á hvernig verk eru framkvæmd og aukið eftirlit stjórnvalda um hvernig staðið er að framkvæmd þeirra, gæðin eru þar með talin. Gerðar hafa verið athuganir á áhrifum breytinganna, það er að greina að kaupendur og seljendur heilbrigðisþjónustu.

Mig langar að fara nokkrum orðum um það og byggi á reynslu af þessum breytingum í Bretlandi og í Svíþjóð. Ég tek undir með hæstv. heilbrigðisráðherra að hugmyndirnar eru ekki síst komnar frá krötum í Svíþjóð og í Bretlandi. (Gripið fram í.) Ég verð að segja, af því að ég hef talað fyrir þessum hugmyndum í nokkuð langan tíma, að þegar ég fór að lesa mér til um málið í fræðilegum tilgangi varð það mér pínulítið áfall að sjá þetta voru kratískar hugmyndir en ekki frjálshyggjuhugmyndir. (Gripið fram í.) Það mundi þá kannski að einhverju leyti plástra þá últravinstri menn sem eru inni á þingi sem mér heyrist þó samt ekki gera.

Varðandi reynsluna af kerfinu er í fyrsta lagi hægt að bæta þjónustuna með því að tengja forgangsröðun og áætlanir í nýtingu fjármuna. Þannig væri í meira mæli horft til hagkvæmari lausna, t.d. að færa þjónustu á milli þjónustustiga, svo sem frá sjúkrahúslegu til þjónustu á göngudeild eða dagdeild. Reynslan frá Bretlandi sýnir m.a. þessa þróun, það er að breytt form fjármögnunar hafi leitt til þess að annarra leiða er leitað til að ná sama árangri og með því sem áður var veitt á sjúkrahúsi og er flutt á göngudeild og/eða dagdeild. Tækniþróun og ný og breytt viðhorf um hlutdeild sjúkrahúsa hafa einnig stuðlað að þessari breytingu.

Reynslan frá Bretlandi og Nýja-Sjálandi bendir til þess að aðskilnaður kaupenda og seljenda heilbrigðisþjónustu hafi aukið vægi neðri stiga heilbrigðisþjónustu sem er ekki eins sérhæfð, t.d. heilsugæslu og félagslegrar þjónustu, á kostnað sjúkrahúsa og stofnanaþjónustu. Horft er á það sem eina heild og breytingarnar hafa leitt til þess að þjónustustig hefur verið lækkað þar sem það hefur verið hægt að gera. Einnig hefur áhersla á lýðheilsuábyrgð einstaklinga á eigin heilsu aukist.

Í öðru lagi að möguleiki er á að mæta betur þörfum og væntingum neytenda með því að gera þá þátttakendur í ákvörðun um val á þjónustu. Hugmyndir um að fé fylgi sjúklingi gera það mögulegt. Það má t.d. hugsa sér slíka útfærslu í heilsugæslu þar sem fjármagn fylgir sjúklingi til þeirrar heilsugæslustöðvar þar sem hann kýs að leita þjónustu.

Í þriðja lagi að bæta frammistöðu veitenda þjónustu með því að byggja inn í kerfið hvata fyrir veitanda að standa sig vel og eftirlit sem metur afköst og gæði þjónustunnar.

Í fjórða lagi að minnka umfang stjórnunar með því að færa ákvörðunarvald nær vettvangi þannig að veitandi þjónustunnar geti einbeitt sér að því að veita hagkvæma gæðaþjónustu.

Í fimmta og síðasta lagi er með aðskilnaði kaupanda og seljanda þjónustunnar möguleiki á að koma á samkeppni milli seljenda um verð og gæði þjónustunnar. Slíkar hugmyndir eru óháðar því hverjir eru seljendur þjónustunnar og geta ekki síður opinberir aðilar komið að slíku. Ef t.d. sjúkrahúsið á Akureyri treystir sér til að gera liðskiptaaðgerð með ódýrari hætti en Landspítalinn án þess að það bitni á gæðum hefur sjúkrahúsið ákveðið forskot í samkeppni um að gera slíkar aðgerðir.

Herra forseti. Ég vil að lokum segja að reynsla annarra þjóða, nágrannaþjóða okkar, sýnir okkur að breyttar áherslur í fjármögnun heilbrigðisþjónustu, frá beinum fjárveitingum til fjárveitinga sem bundnar eru meðferð skjólstæðinga, hafa leitt til aukinnar samþættingar þjónustu við skjólstæðinga á öllum stigum heilbrigðisþjónustu og annarrar samfélagslegrar þjónustu. Þá hefur áhersla á árangur meðferðar leitt til markvissari vinnubragða í þjónustu, m.a. með aukinni upplýsingagjöf, sannreyndari meðferðarformum, betri nýtingu aðfanga og forgangsröðun.

Því má ljóst vera að ég tel frumvarpið sem hér er til umfjöllunar vera mikið framfaraspor í íslenskri heilbrigðisþjónustu og ég hlakka til umfjöllunar um málið í hv. heilbrigðisnefnd að lokinni 1. umr. um málið.