135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:16]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ákveðinn misskilningur í gangi hjá hv. þingmanni. Þessar hugmyndir um kaupendur og seljendur á heilbrigðisþjónustu eru óháðar hugmyndum um rekstrarform. Einkarekstur er bara eitt rekstrarform og einn eða fleiri aðilar sem hægt er að kaupa heilbrigðisþjónustu af. Það er í raun óháð þessu en getur tengst því að vissu leyti. Í dag er það svo að í þeim tilvikum sem ríkið kaupir heilbrigðisþjónustu þá er það af einkaaðilum.

Varðandi kostnað sjúklinga er það líka óháð rekstrarforminu. Það er allt önnur ákvörðun hver kostnaðarhlutdeild sjúklinga skuli vera í heilbrigðisþjónustu. Nýjustu tölur frá OECD sýna að kostnaðarhlutdeild sjúklinga hefur lækkað á síðustu árum úr 18% í 15% af heildarkostnaði heilbrigðisþjónustu. Því er ekki hægt að segja að þessum kostnaði sé velt yfir á sjúklinga. Breytingin er algjörlega óháð því. Það er sérstök ákvörðun ef auka á kostnaðarhlutdeild.

Varðandi valið þá get ég kannski tekið stutt dæmi um þá hugmynd að fé fylgi sjúklingi. Það er náttúrlega þannig í heilbrigðisþjónustunni að þar verður aldrei samkeppni um verð en hins vegar er hægt að hafa ákveðna samkeppni um gæði. Ég sé það t.d. fyrir mér á heilsusgæslustöðvum, við skulum horfa bara á höfuðborgarsvæðið sem er mjög auðvelt að skoða, með fullri virðingu fyrir landsbyggðinni, en á höfuðborgarsvæðinu mætti vel hugsa sér að fólk geti valið sér heilsugæslustöð og fé fylgi viðkomandi sjúklingi til viðkomandi heilsugæslustöðvar. Í því felst ákveðið val.