135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:57]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að að vissu marki fer fram kostnaðargreining á heilbrigðisþjónustunni á ákveðnum sviðum á Íslandi. Hv. þingmaður nefndi m.a. RAI-matið sem notað er til grundvallar greiðslum til öldrunarstofnana. Jafnframt hefur komið fram að Tryggingastofnun ríkisins semur við sjálfstætt starfandi sérfræðinga um ákveðin verkefni.

Ég verð að segja að ég hef ekki heyrt hv. þingmann gagnrýna þessi tvö kerfi. Hins vegar finnur hún því skrefi sem stendur til að taka núna allt til foráttu, þ.e. að taka upp DRG-kerfi sem yrði viðbót við kostnaðargreiningu í heilbrigðisþjónustu. Ætlunin er að færa þau verkefni, að kaupa heilbrigðisþjónustu, hvort sem það er af opinberum aðila, sjálfseignarstofnun, félagasamtökum eða einkaaðilum, þannig að haldið sé utan um það fjármagn.

Mér finnst það mjög sérkennilegt að hv. þingmaður segi að kostnaðargreining muni bitna á sjúklingunum og það sé óeðlilegt að verðmerkja sjúklinga. Það er alls ekki. Það er stjórntæki ríkisins til þess að fara vel með skattfé borgaranna, þ.e. gera kostnaðarmat á þeirri þjónustu sem ríkið kaupir. Það eru mjög eðlileg vinnubrögð. Í því felst ekki að farið sé illa með sjúklinga. Öðru nær.

Ég hlustaði á það fyrir nokkru síðan hvernig DRG-kerfið hefur t.d. verið notað innan Landspítalans til að auka gæði þjónustu með samanburði við þá þjónustu annars staðar. Í útreikningum stofnunarinnar kom m.a. fram að keisaraskurður kostaði miklu meira á Íslandi en í Svíþjóð. Þeir fóru ofan í það hverju það sætti og fundu leiðir til að lækka kostnaðinn og bæta þjónustuna. Þetta stjórntæki er fyllilega bært til að bæta þjónustu (Forseti hringir.) og um leið nýtingu opinbers fjármagns.