135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:59]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé misskilningur hjá hv. þingmanni að ég hafi sagt að þetta bitnaði beint á sjúklingunum. Ég sagði að þetta væri ný hugsun fyrir langflesta sem vinna innan heilbrigðisþjónustunnar svo ég tali ekki um sjúklingana, þessi kostnaðarhugsun, kostnaðarvitund. Það er ekki hið sama og maður sé meðvitaður um hvað hlutirnir kosta og fari vel með. Það er sú hugsun sem heilbrigðisstarfsmenn hafa haft en ekki haft upp á krónur og aura og sundurgreint.

Ég er ekki að segja að þetta bitni á sjúklingunum en þetta er ný hugsun. Ég er ekki að gagnrýna DRG-kerfið á Landspítalanum. Það er eðlilegt að stofnunin skoði vel ef eitthvað passar ekki inn í kostnað við aðgerðir hjá öðrum þjóðum, að það sé skoðað og lagfært, fundið út hvað það er í ferlinu sem er hægt að laga.

Tryggingastofnun hefur vissulega verið með kostnaðargreiningu þegar hún hefur samið við sérfræðinga og við höfum líka séð hvernig það hefur gengið fyrir sig. Það hefur nú aldeilis verið himinn og haf þar á milli, þess sem sérfræðingarnir telja sig eiga að fá og það sem Tryggingastofnun telur að þeim beri. Og RAI-kerfið hefur löngum verið notað. Þetta eru allt saman mælieiningar sem eru og hafa verið nýttar.

En hugmyndin um það að slík greining verði allsráðandi og svo meðvituð er nokkuð sem þarf að taka skemmri skref í átt að. Þau munu leiða til, sem er opinber stefna þessarar ríkisstjórnar, fjölbreyttari þjónustu sem merkir einfaldlega meiri einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Skref fyrir skref er það gert auðveldara (Forseti hringir.) að hafa meiri einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni.