135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:03]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í heilbrigðisráðuneytið eins og hefur verið ósk hans í nokkrum undanförnum ríkisstjórnum. Núna er stundin runnin upp og stefna ríkisstjórnarinnar er alveg skýr, auka á framboð og útboð á þjónustusamningum, bjóða á út meira af þjónustunni, efla á einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Það er stefna núverandi ríkisstjórnar, það liggur fyrir, spurningin er hvar stoppað verður.

Eins og hv. þingmaður sagði er stefnt að því að fjármagn til stofnana verði samkvæmt þjónustu. Hvort það mun eingöngu gerast ef komið verður á hið svonefnda DRG-kerfi eða hvaða skilgreiningar verða notaðar til að ná betur utan um þetta en er í dag þá eru þessar stofnanir sannarlega fjársveltar og hafa verið. Gerð hefur verið grein fyrir hvar vandinn liggur, hvar vanáætlað er í reksturinn en þær hafa eftir sem áður ekki fengið neinar leiðréttingar. Ég tel að svo verði einnig við afgreiðslu fjárlaga núna að dvalarheimilin og hjúkrunarheimilin sitji eftir með sárt ennið.

Hvað varðar heimahjúkrunina þá er ég vissulega ekki að vanmeta það sem þegar hefur komið og að áætlað er að á næstu tveimur árum verði aukið fjármagn til heimahjúkrunar og sólarhringsþjónustu þar með, en þá vil ég líka benda á að mjög erfitt hefur verið að fá hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til starfa í heimahjúkruninni. Á þessu ári hefur ekki einu sinni náðst að manna hana eins og þó var fjármagn til og því þarf verulega meira til.