135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:06]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi á svo til alla ræðu hv. þingmanns og ég gat ekki skilið hana á annan veg en að hún sé fylgjandi þeirri verkaskiptingu sem hér er verið að mæla fyrir og fagna ég því í sjálfu sér og er ágætt að hv. þingmaður skuli taka undir það.

Hitt fannst mér hins vegar athyglisverðara í ræðu hv. þingmanns að hún nefndi hugmyndafræði nokkrum sinnum og fjallaði um stefnu ríkisstjórnarinnar sem hún þekkir ágætlega og er nokkuð skýr. Mér þætti þess vegna fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni hver hugmyndafræði Vinstri grænna er því að hv. þingmaður er talsmaður þess flokks í heilbrigðismálum, í því ljósi að aukning útgjalda ríkissjóðs til heilbrigðismála er mjög nálægt því að vera 40% raunaukning frá árinu 2005 til fjárlaga ársins 2008. Ég er ekki að tala um að við sjáum eftir því fé sem í kerfið fer en hins vegar verðum við að vera vel vakandi yfir því hvernig við getum nýtt þetta fé sem best og það gerum við og nálgumst þetta verkefni með opnum hug. Við ætlum hins vegar að tryggja að allir hafi aðgang að heilbrigðisþjónustunni án tillits til efnahags, það er lykilatriði og við það verður staðið. Þess vegna þætti mér vænt um, og ég held að það gæti dýpkað umræðuna örlítið, ef hv. þingmaður útskýrði fyrir okkur hver hugmyndafræði Vinstri grænna er í þessum efnum, hvort þeir telji einhverja ástæðu til að koma að þessu eða hvort ákvarðanir fortíðarinnar sé hin eina rétta leið, þ.e. að ekki sé ástæða til að breyta neinu heldur halda öllu óbreyttu. Ég held að það gæti verið mjög fróðlegt að fá þetta inn í umræðuna, virðulegi forseti.